Messier 73

Samstirni í Vatnsberanum

  • Messier 73, samstirni, Vatnsberinn
    Samstirnið Messier 73 í Vatnsberanum. Mynd: Palomar Observatory/Caltech
Helstu upplýsingar
Tegund: Samstirni
Stjörnulengd:
20klst 58mín  54s
Stjörnubreidd:
-12° 38′
Fjarlægð:
2.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+9
Stjörnumerki: Vatnsberinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6994

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði samstirnið 4. október 1780. Af lýsingu Messiers að dæma má ráða að hann hafi skráð samstirnið hjá sér á sama tíma og kúluþyrpinguna Messier 72. Hafa ber í huga að tilgagngur Messierskrárinnar var að safna saman fyrirbærum á himninum sem hægt væri að rugla saman við halastjörnur. Ástæða þess að Messier 73 fékk að fljóta með gæti verið að Messier hafi séð votta fyrir þokumóðu umhverfis stjörnurnar.

Seinni tíma athuganir Johns Herschel sýndu enga þokumóðu og taldi auk þess vafasamt að flokka Messier 73 sem þyrpingu. Engu að síður rataði Messier 73 í skrá Herschels yfir þyrpingar og þokur (fyrirbæri GC 4617), auk þess sem John Dreyer hafði hana líka í NGC skrá sinni.

Samanlagt sýndarbirtustig stjarnanna í samstirninu er +9. Enn er á huldu hvort stjörnurnar séu saman í þyrpingu. Fjarlægðir til stjarnanna er nokkuð óviss (líklega í kringum 2.000 ljósár) en benda til að stjörnurnar séu alls ótengdar. Vonandi fæst úr því skorið hvort stjörnurnar séu saman í hópi eða ekki þegar nýtt geimfar Evrópumanna, Gaia, fer á loft árið 2013 en það á að kortleggja og mæla fjarlægðir til um eins milljarðs stjarna, bæði í Vetrarbrautinni og öðrum vetrarbrautum.

Á himninum

Messier 73 er skammt frá Messier 72 og Satúrnusarþokunni NGC 7009 (sjá stjörnukort af Vatnsberanum). Samstirnið er dauft og sést best í stjörnusjónauka.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 73. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-73 (sótt: DAGSETNING).