Messier 74

Þyrilvetrarbraut í Fiskunum

  • Þyrilvetrarbraut, M74
    Þyrilvetrarbrautin M74 á mynd frá Hubblessjónaukanum
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilvetrarbraut (SA(s)c)
Stjörnulengd:
01klst 36mín  41,8s
Stjörnubreidd:
+15° 47′ 01"
Fjarlægð:
30.000.000 ljósár
Rauðvik:
 657 km/s (z = 0,002192)
Sýndarbirtustig:
+10
Stjörnumerki: Fiskarnir
Önnur skráarnöfn:
NGC 628, UGC 1149, PGC 5974

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði vetrarbrautina undir lok septembermánaðar árið 1780. Hann sagði landa sínum Charles Messier frá henni sem bætti henni við skrá sína 18. október sama ár. Messier 74 er meðal fyrstu vetrarbrautanna þar sem mönnum tókst að greina þyrilarma. Rosse lávarður flokkaði hana með 13 öðrum vetrarbrautum um miðja 19. öld þar sem hægt var að greina þyrillögun eða bogadregna arma.

Messier 74 er bjartasta vetrarbrautin í hópi 5-7 vetrarbrauta sem kennd er við hana.

Sprengistjörnur

Á 21. öld hafa þrjár sprengistjörnur sést í Messier 74: SN2002ap, SN2003gd og SN 2013ej.

SN 2002ap vakti nokkra athygli stjörnufræðinga því hún var sjaldgæft dæmi um sprengistjörnu af gerð Ic í innan við 10 Megaparseks fjarlægð. Sprengistjarnan hefur verið notuð til að prófa kenningar um uppruna samskonar gerðar sprengistjarna í meiri fjarlægð og kenningar um tengsl sprengistjarna og gammablossa

SN 2003gd var sprengistjarna af gerð II. Ljósafl slíkra sprengistjarna er þekkt svo hægt er að nota þær til að reikna nákvæmlega út fjarlægðir. Fjarlægðin til SN 2003gd og þar af leiðandi til Messier 74, reyndist um 31 milljóna ljósára fjarlægð.

SN 2013ej sást fyrst á myndum Lick stjörnustöðvarinnar þann 25. júlí 2013.

Svarthol

Messier 74, svarthol, Fiskarnir
Svarthol í Messier 74. Mynd: NASA/CXC/U. of Michigan/J.Liu et al.; NOAO/AURA/NSF/T.Boroso

Þann 22. mars árið 2005 tilkynntu stjörnufræðingar að Chandra röntgengeimsjónauki NASA hefði fundið geysibjarta uppsprettu röntgengeislunar í Messier 74 sem gæfi frá sér meiri röntgengeislun en nifteindastjarna á um það bil tveggja klukkustunda fresti.

Massi uppsprettunnar er í kringum 10.000 sólir sem bendir til að þarna sé á ferðinni meðalstórt svarthol. Massinn fellur nokkurn veginn á milli svarthola með sambærilegan massa og stjörnur og svo risasvartholanna í miðju vetrarbrauta. Uppsprettan kallast CXOU J013651.1+154547.

Á himninum

Messier 74 er sérlega gott dæmi um þyrilvetrarbraut sem við horfum ofan á. Af þessu leiðir að hún þekur stærra svæði á himninum heldur en margar aðrar vetrarbrautir. Sýndarbirtustig hennar er +10 en yfirborðsbirtan er lág sem þýðir að hún er í hópi þeirra Messier-fyrirbæra sem erfiðast er að greina á himninum.

Tvær þægilegar leiðir eru til þess að finna Messier 74. Annars vegar er hægt að rekja sig upp frá björtustu stjörnunni í Fiskunum α (alfa), upp að η (eta) eða fara eftir beinni línu frá tveimur af björtustu stjörnum Hrútsins niður að η (eta) (sjá stjörnukort af Fiskunum).

Messier 74, Spitzer, innrautt
Innrauð ljósmynd Spitzer geimsjónauka NASA af Messier 74. Mynd: NASA/JPL-Caltech/B.E.K. Sugerman (STScI)

Best er að skoða þessa vetrarbraut í stjörnusjónauka við litla stækkun (t.d. 30-50x). Góð leið til að sjá hana í gegnum sjónaukann er að nota hliðraða sjón, þ.e. horfa aðeins til hliðar við hana í sjónsviðinu, þegar augun eru fullkomlega aðlöguð myrkrinu.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 74. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-74 (sótt: DAGSETNING).