Messier 78

  • Messier 78, M78, ESO, WFI, NGC 2068
    Messier 78 á mynd sem tekin var með Wide Field Imager í stjörnustöð ESO í La Silla í Chile. Mynd: ESO og Igor Chekalin
Helstu upplýsingar
Tegund: Endurskinsþoka
Stjörnulengd:
05klst 46,7mín
Stjörnubreidd:
+00° 03′
Fjarlægð:
1600 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,3
Hornstærð:
8x6 bogamínútur
Radíus:
2 ljósár
Stjörnumerki: Óríon
Önnur skráarnöfn:
NGC 2068, Ced55u

M78 er bjartasta endurskinsþokan í viðamiklum hópi sem telur líka NGC 2064, NGC 2067 og NGC 2071. Þessi hópur — auk Logaþokunnar NGC 2024 — er hluti af LDN 1603 sameindaskýinu sem aftur er hluti Óríon sameindaskýsins en stærsta og bjartasta þokan í því er Sverðþokan í Óríon.

Árið 1919 gerði bandaríski stjörnufræðingurinn Vesto Slipher litrófsrannsóknir á Messier 78 og komst að því að hún var endurskinsþoka. Þokan endurvarpar og dreifir því ljósi sem tvær heitar, bláar stjörnur af B-gerð — HD 38562A og HD 38563B — báðar af sýndarbirtustigi 10, gefa frá sér. Litróf þokunnar er því samfellt og svipað litrófi stjarnanna tveggja.

Út frá fjarlægð reikna menn sér til að M78 sé um fjögur ljósár á breidd. Í þokunni hafa fundist 45 ungar (innan við 10 milljón ára gamlar) lágmassastjörnur sem flokkast til T-Tarfsstjarna. Einnig hafa fundist í þokunni Herbig-Haro fyrirbæri en allt bendir þetta til þess að töluverð stjörnumyndun eigi sér þarna stað.

Í febrúar árið 2004 tók stjörnuáhugamaðurinn Jay McNeil mynd af svæðinu með 75mm sjónauka. Á henni sást björt þoka þar sem lítið sem ekkert sást á eldri ljósmyndum. Fyrirbærið er nú þekkt sem þoka McNeils og virðist vera mjög breytileg endurskinsþoka í kringum unga stjörnu.

Á himninum

stjörnukort, stjörnumerki, ÓríonFrekar auðvelt er að finna M78 á himninum. Þokan er um 2° norður og 1,5° austur af Alnítak (zeta Orionis), austustu eða neðstu stjörnunni í belti Óríons (Fjósakonunum). Keðja þriggja stjarna af birtustigi 5 til 6 norðan Alnítak geta hjálpað til við að finna hana (sjá kort til hægri).

Messier 78 sést naumlega í gegnum handsjónauka við góðar aðstæður, þá sem mjög daufur þokublettur. Í gegnum stjörnusjónauka er hún mun bjartari og minnir um margt á daufa halastjörnu.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 78. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-77 (sótt: DAGSETNING).