Messier 80

Kúluþyrping í Sporðdrekanum

  • Messier 80, kúluþyrping, Sporðdrekinn
    Kúluþyrpingin Messier 80 í Sporðdrekanum. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
16klst 17mín 02.51s
Stjörnubreidd:
-22° 58′ 30,4"
Fjarlægð:
32.600 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,87
Stjörnumerki: Sporðdrekinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6093

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna þann 4. janúar árið 1781 og lýsti henni sem þoku án stjarna sem líktist kjarna halastjörnu. William Herschel greindi fyrstur manna stjörnur í henni fyrir árið 1785.

Messier 80 er í um 32.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkuð stór og inniheldur nokkur hundruð þúsund stjörnur sem dreifast yfir svæði sem um 95 ljósár í þvermál. Hún er því með þéttustu kúluþyrpingum Vetrarbrautarinnar.

Í Messier 80 er mikill fjöldi „blárra flækinga“, stjarna sem virðast miklu yngri en þyrpingin sjálf. Talið er að þessar stjörnur hafi glatað hluta af ytri lögum síonum þegar þær gerðust nærgöngular við aðrar stjörnur í þyrpingunni eða hugsanlega við árekstra milli stjarna.

Þann 21. maí árið 1860 sást nýstirni í Messier 80. Nýstirnið er breytistjarna sem kallast T Scorpii og varð um skamma stund bjartari en þyrpingin í heild sinni.

Á himninum

Messier 80 er of sunnarlega á himinhvolfinu til að hægt sé að sjá hana frá Íslandi. Fara þarf á mun suðlægari slóðir til að sjá þyrpinguna og styðjast við stjörnukort af Sporðdrekanum til að finna hana. Hún er um það bil 4 gráður norðvestur af Antaresi, miðja vegu milli Antares og Graffias (Beta) í Sporðdrekanum.

Með handsjónauka birtist Messier 80 sem lítill, kúlulaga blettur með bjartan kjarna sem dofnar út til jaðranna. Í gegnum stjörnusjónauka lítur þyrpingin mjög svipað út og daufur kjarni halastjörnu sem vantar halann. Nota þarf fremur stóran áhugamannasjónauka til að greina vel stjörnur í þyrpingunni.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 80, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_80

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 80. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-80 (sótt: DAGSETNING).