Messier 82

Óregluleg hrinuvetrarbraut í Stórabirni

  • óregluleg vetrarbraut, m82
    M82 í Stórabirni er óregluleg vetrarbraut
Helstu upplýsingar
Tegund: Óregluleg hrinuvetrarbraut
 Gerð: I0
Stjörnulengd:
09klst 55mín 52,2s
Stjörnubreidd:
+69° 40′ 47"
Fjarlægð:
12 milljónir ljósára
Sjónstefnuhraði:
203 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+8,4
Stjörnumerki: Stóribjörn
Önnur skráarnöfn:
NGC 3034

Þýski stjörnufræðingurinn Jóhann Elert Bode uppgötvaði Messier 81 og Messier 82 þann 31. desember árið 1774. Bode lýsti þokunni sem þokubletti innan við gráðu frá Messier 81. Í ágúst árið 1779 fann Frakkinn Pierre Méchain þokuna og lét landa sinn og vin Charles Messier vita af henni. Messier bætti henni þá við skrá sína eftir að hafa mælt hnit hennar á himninum þann 9. febrúar 1781. Skömmu fyrir 1850 tók Williams Parsons, lávarður af Rosse, fyrstur manna eftir dökkum rykslæðum í miðhluta Messier 82.

Messier 82 er einnig nefnd Vindlavetrarbrautin eða bara einfaldlega Vindillinn vegna lögunar sinnar sem hlýst af því að hún er á rönd frá okkar sjónarhóli.

Eiginleikar

Messier 82 er í um 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún telst óregluleg vetrarbraut en árið 2005 fundust merki um tvo þyrilarma í henni.

Messier 82 er hrinuvetrarbraut sem vísar til hinnar miklu stjörnumyndunar sem stendur yfir í henni. Á miðsvæði Messier 82 verða til stjörnur tífalt örar en í vetrarbrautinni okkar. Nýju stjörnurnar eru massamiklar og heitar og gefa ekki aðeins frá sér sterka geislun heldur gríðaröflugan sólvind. Sólvindurinn rekst á gas í vetrarbrautinni og þjappar því enn frekar saman sem leiðir til myndunar milljóna annarra stjarna. Í leiðinni þeytast strókar úr jónuðu vetnisgasi í sitthvora áttina, upp fyrir og niður undir skífu vetrarbrautarinnar. Þetta rauða gas sést vel á ljósmynd Hubble geimsjónaukans. Öflugt útvarpssuð berst frá þessu mikla gasflæði.

Í Messier 82 eru ungar stjörnur samankomnar í litlum en massamiklum stjörnuþyrpingum. Þyrpingarnar safnast saman og mynd bjarta kekki eða stjörnumyndunarklumpa í miðsvæðum M82.

Að lokum, eftir hugsanlega nokkra tugi milljóna ára, mun stjörnumyndunin deyja út. Þegar hún er orðin of mikil, tortímir hún sjálf því efni sem þarf til að framleiða nýjar stjörnur.

Rekja má alla þessa miklu hrinu stjörnumyndunar til nálægðarinnar við Messier 81. Aðeins um 300.000 ljósár skilja vetrarbrautirnar að. Messier 81 er stærri og hefur því meiri þyngdaráhrif á nágrannann sinn. Flóðkraftar aflaga vetrarbrautirnar og kemur róti á gas og ryk í þeim og hrindir af stað stjörnumyndun. Á síðustu 100 milljónum ára hafa nokkrar stjörnumyndunarhrinur orðið í Messier 82.

Sprengistjarnan SN 2014J

Fyrsta íslenska ljósmyndin af sprengistjörnunni í Messier 82. Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, tók myndina að kvöldi 23. janúar 2014. Mynd: Jón Sigurðsson
Sprengistjarnan SN 2014J í Messier 82. Mynd: Jón Sigurðsson

Þriðjudagskvöldið 21. janúar 2014 fannst sprengistjarna í Messier 82. Litrófsgreining sem gerð var á ljósi hennar strax í kjölfarið sýndi að um var að ræða sprengistjörnu af gerð Ia.

Mælingarnar sýndu líka að leifarnar eru að þenjast út með um 20.000 km hraða á sekúndu og að ljósið hefur roðnað vegna ryks á milli sprengistjörnunnar og okkar.

Sprengistjarnan SN 2014J er sú nálægasta sem sést hefur frá árinu 1987, en þá sást sprengistjarna í Stóra Magellansskýinnu, sem er í aðeins 160.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Þótt SN 2014J hafi verið of dauf til að sjást með berum augum en hún sást leikandi í gegnum litla áhugamannasjónauka.

M81 hópurinn

stjörnukort, stjörnumerki, Stóribjörn
Kort sem sýnir staðsetningu Messier 81 í stjörnumerkinu Stórabirni. Kort: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn

Messier 82 er næststærsta vetrarbrautin í M81 hópnum sem telur 34 vetrarbrautir.  Hópurinn er í aðeins um 12 milljón ljósára fjarlægð. Hann er næstnálægasti vetrarbrautarhópurinn við Grenndarhópinn, sem vetrarbrautin okkar tilheyrir; aðeins Myndhöggvarahópurinn er nálægari.

Á himninum

Það getur verið nokkuð snúið að finna Messier 82 á himninum. Til þess þarf að nota stjörnukort af Stórabirni. Messier 82 er um það bil 10 gráður norðvestur af stjörnunni Alfa í Stórabirni (krepptur hnefi í útréttri hendi nær yfir um 10 gráðu svæði á himninum). Gott er að skanna svæðið með handsjónauka eða leitarsjónauka.

Best er að skoða Messier 82 með stjörnusjónauka við meðalstækkun. Með sjónaukum með lítilli stækkun er hægt að sjá M81 og M82 í sama sjónsviði. Höfundur þessarar greinar hefur séð skilin í miðju vetrarbrautarinnar með 6 tommu sjónauka en það er enn augljósara í stærri sjónaukum.

Myndasafn

 Messier 82, Messier 81, hrinuvetrarbraut, Stóribjörn  

Stjörnumerkið Stóribjörn og staðsetning Messier 81 og Messier 82

Hér sést stjörnumerkið Stóribjörn sem er hátt á norðurhimninum. Búið er að merkja inn staðsetningar vetrarbrautanna Messier 81 og Messier 82.

Mynd: Akira Fujii

Messier 81, Messier 82, þyrilþoka, Stóribjrön

Víðmynd af Messier 81 og Messier 82

Þyrilþokan Messier 81 og nágrannavetrarbrautin Messier 82 á mynd Digitized Sky Survey 2 (SDSS)

Mynd: ESA/Hubble og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin

óregluleg vetrarbraut, m82

Mynd Hubble geimsjónaukans af Messier 82

Þessi mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA er sú skarpasta sem tekin hefur verið af vetrarbrautinni. Á myndinni sjást vel rauðu jónuðu vetnisgasskýin sem stefna út frá miðsvæðum vetrarbrautarinnar þar sem stjörnur verða til tífalt örar en í vetrarbrautinni okkar.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA). Þakkir: J. Gallagher (University of Wisconsin), M. Mountain (STScI) og P. Puxley (NSF).

Messier 82, hrinuvetrarbraut, Stóribjörn

Samsett mynd Hubble, Chandra og Spitzer af Messier 82

Messier 82 á mynd sem skeytt var saman úr gögnum Hubble, Chandra og Spitzer geimsjónaukanna. Gögn Chandra sýna röntgengeislun frá heitustu svæðum vetrarbrautarinnar (blá), gögn Spitzers innrautt ljós frá gasi og ryki (rauð) og gögn Hubbles sýna sýnilegt ljós (gult-grænt).

Mynd: NASA, ESA, CXC og JPL-Caltech

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 82. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-82 (sótt: DAGSETNING).