Messier 9

Kúluþyrping í Naðurvalda

  • Messier 9, M9, kúluþyrping, Naðurvaldi
    Kúluþyrpingin Messier 9 í Naðurvalda. Mynd: NASA/ESA
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
17klst 19mín  11,78s
Stjörnubreidd:
-18° 30′ 58,5"
Fjarlægð:
25.800 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,42
Stjörnumerki: Naðurvaldi
Önnur skráarnöfn:
NGC 6333

Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna árið 1764 og skrásetti 28. maí sama ár. Messier lýsir henni sem kúlulaga og daufri þoku án stjarna. Tuttugu árum síðar greindi William Herschel fyrstur manna stakar stjörnur í þyrpingunni með 47,5 cm spegilsjónauka sínum.

Messier 9 er aðeins um 5.500 ljósár frá miðju okkar vetrarbrautar og því ein nálægasta kúluþyrpingin við hana. Hún er í 25.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni og 90 ljósár að þvermáli.

Með stjörnusjónauka sést að þyrpingin er þónokkuð sporöskjulaga. Ástæðan er sú að í sömu stefnu er töluvert geimryk frá skuggaþokunni Barnard 64. Það sést ágætlega á víðmyndum. Af þeim sökum sýnist þyrpingin nokkru daufari en hún er í raun og veru. Útreikningar sýna að þyrpingin er 120.000 sinnum bjartari en sólin okkar.

Messier 9 fjarlægist okkur á um 224 km hraða á sekúndu. Í þyrpingunni hafa fundist 13 breytistjörnur og á stjörnufræðingurinn Walter Baade heiðurinn af því að hafa fundið tíu þeirra.

Í gegnum sjónauka

Við góðar aðstæður er auðvelt að sjá Messier 9 með handsjónauka (t.d. 8x42). Þyrpingin sést sem lítill og daufur þokublettur en lögunin leynir sér ekki. Þyrpingin sést enn betur í litlum stjörnusjónaukum og í sjónaukum sem eru stærri en 6 tommur sjást björtustu stjörnur þyrpingarinnar — sem eru af birtustigi 13,5 — nokkuð greinilega. Í gegnum sjónaukann sést að þyrpingin er 7 eða 8 bogamínútur að stærð og þéttist þegar nær dregur kjarnanum. Stærri sjónauka þarf til að greina kjarnann vel.

Messier 9, M9, kúluþyrping, Naðurvaldi, Barnard 259, Barnard 64
Víðmynd af svæðinu í kringum Messier 9. Dökku flekkirnir eru skuggaþokurnar Barnard 64 (hægra megin) og Barnard 259 (undir). Mynd: Digitized Sky Survey 2: Þakkir: Davide De Martin

Fremur auðvelt er að staðsetja Messier 9 á himninum, þótt hún komist aldrei hærra en sjö gráður yfir sjóndeildarhringinn. Ágætt er að miða við stjörnuna Sabik (35 Eta Ophiuchi), sem er af birtustigi +2,43 og því sýnileg berum augum, en þyrpingin er þrjár gráður suðaustur af henni. Gott er að styðjast við stjörnukort af Naðurvalda.

Með 6 eða 8 tommu sjónaukum og stærri sést önnur minni og daufari kúluþyrping, NGC 6356, um 80 bogamínútum norðaustur af Messier 9. Birtustig hennar er +8,25 en hún er tvöfalt fjarlægari en Messier 9 eða í tæplega 50.000 ljósára fjarlægð. Álíka langt suðvestur af Messier 9 er enn önnur kúluþyrping, NGC 6342, sem bæði er minni og daufari en NGC 6356.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 9, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_9

  3. Glitrandi gimsteinar Messier 9

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 9. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-9 (sótt: DAGSETNING).