Messier 91

Bjálkaþyrilþoka í Bereníkuhaddi

  • Messier 91, bjálkaþyrilþoka, Meyjan
    Bjálkaþyrilþokan Messier 91 í Meyjunni. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: SBb(rs)
Stjörnulengd:
12klst 35mín 26,4s
Stjörnubreidd:
+14° 29′ 47"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
486 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+11
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 4548

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 18. mars 1781. Sama kvöld skrásetti hann sjö önnur þokukennd fyrirbæri á sama svæði á himninum, allt vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni en líka kúluþyrpinguna Messier 92. Messier gerði hins vegar mistök við skráninguna og var M91 „týnd“ í næstum tvær aldir.

Þann 8. apríl 1784 reyndi William Herschel að skoða M91 en fann ekki á þeim stað sem Messier hafði skráð. Herschel fann hins vegar aðra þoku í nágrenninu sem síðar fékk skráarheitið NGC 4548. Það var ekki fyrr en árið 1969 að bandaríski stjörnuáhugamaðurinn William C. Williams fann út að NGC 4548 var sama vetrarbraut og Messier hafði skrásett sem M91.

Messier 90 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni rúmlega 1.300 vetrarbrauta. Þessi bjálkaþyrilþoka er í norðurhluta þyrpingarinnar og því í suðurhluta stjörnumerkisins Bereníkuhadds. Hún stefnir í átt að miðju Meyjarþyrpingarinnar og ferðast í leiðinni í gegnum heitt en dreift gas. Þannig verður til þrýstingur sem sviptir vetrarbrautina gasi og dregur úr myndun nýrra stjarna

Á himninum

Nota þarf stjörnukort af Bereníkuhaddi til að finna Messier 91 og nákvæmara kort af þyrpingunni. Notaðu eins litla stækkun og mögulegt er svo sjónsvið sjónaukans sé sem víðast. Messier 91 er ein daufasta þoka Messierskrárinnar en hægt er að greina bjálkann í stjórum áhugamannasjónaukum við góðar aðstæður.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 91. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-91 (sótt: DAGSETNING).