Messier 94

Bjálkaþyrilþoka í Veiðihundunum

  • Messier 94, þyrilþoka, Veiðihundarnir
    Þyrilþokan Messier 94 í Veiðihundunum. Mynd: Adam Block/NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Bjálkaþyrilþoka
 Gerð: (R)SA(r)ab
Stjörnulengd:
12klst 50mín 53,1s
Stjörnubreidd:
+41° 07' 14"
Fjarlægð:
16 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
360 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+9
Stjörnumerki: Veiðihundarnir
Önnur skráarnöfn:
NGC 4736

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna þann 22. mars 1781. Méchain lét landa sinn og vin Charles Messier strax vita af þokunni og skrásetti hann hana tveimur dögum seinna.

Messier 94 er í um 16 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er því ein nálægasta þyrilþokan við okkur fyrir utan Grenndarhópinn.

Athyglisvert er að Messier 94 hefur bjarta innri skífu en daufari ytri skífu. Í björtu innri skífunni stendur mikil nýmyndun stjarna yfir og því einkennist hún af ungum, bláum stjörnuþyrpingum. Skörp skil eru milli hennar og ytri skífunnar sem einkennist af eldri, gulleitari stjörnum en í útjaðrinum eru stjörnur að myndast. Rannsókn frá árinu 2009 sýndi að flókið kerfi þyrilarma í ytri skífunni sem sést vel í mið-innrauðu og útfjólubláu ljósi.

Messier 94 er bjartasta vetrarbrautin í hópi 16 til 24 vetrarbrauta sem kenndur er við hana. Þessi hópur er einn af mörgum sem er tilheyrir Grenndar-ofurþyrpingunni.

Á himninum

Fremur auðvelt er að finna Messier 94 á himninum en gott er að styðjast við stjörnukort af Veiðihundunum. Vetrarbrautin er örfáar gráður norðan við stjörnuna Cor Caroli, björtustu stjörnu Veiðihundanna. Í gegnum handsjónauka og litla stjörnusjónauka sést hringlaga móðublettur en með stærri sjónaukum er hægt að greina smáatriði. Hún er tiltölulega björt og því auðvelt viðfangsefni stjörnuáhugafólks.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 94. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-94 (sótt: DAGSETNING).