Messier 99

Þyrilþoka í Bereníkuhaddi

  • Messier 99, þyrilþoka, Bereníkuhaddur
    Þyrilþokan Messier 99 í Bereníkuhaddi. Mynd: Adam Block/NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SA(s)c
Stjörnulengd:
12klst 18mín 49,6s
Stjörnubreidd:
+14° 24′ 59"
Fjarlægð:
50 milljón ljósár
Rauðvik:
z = 0,008029
Sjónstefnuhraði:
2.407 ± 3 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,4
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 4254

Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði M99 15. mars árið 1781 auk M98 og M100. Þann 13. apríl sama ár skráði landi hans og vinur Charles Messier staðsetningu þokunnar á himninum og færði í skrá sína, rétt áður en hann lauk við þriðju og lokaútgáfu skráar sinnar. Árið 1846 komst William Parsons, lávarður af Rosse, að því að Messier 99 var þyrilþoka.

Messier 99 er í rúmlega 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni og með björtustu þyrilþokum Meyjarþyrpingarinnar. Hún snýst réttsælis ólíkt nágranna sínum M100 og er óvenju ósamhverf því kjarninn víkur þónokkuð frá miðju miðað við fremur lausofna þyrilarmana. Þrjár sprengistjörnur hafa sést í vetrarbrautinni.

Á himninum

Til að finna Messier 99 á himninum þarf að styðjast við stjörnukort af Bereníkuhaddi. Gott er að byrja á að finna Messier 84 og Messier 86 sem eru nokkurn veginn mitt á milli stjarnanna Beta í Ljóninu (Denebólu) og Epsilon í Meyjunni. Notaðu minnstu stækkun sem gefur mest sjónsvið. Þegar vetrarbrautirnar eru fundnar er best að skanna svæðið hægt og rólega með sjónaukanum í norðurátt þar til Messier 99 er fundin. Gott er að nota nákvæmara kort af vetrarbrautunum í Meyjunni til að átta sig á henni. Í gegnum litla sjónauka sést lítil hringlaga þoka en þyrilarmar sjást í meðalstórum og stórum sjónaukum við góðar aðstæður.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 99. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-99 (sótt: DAGSETNING).