47 Tucanae

  • 47 Tucanae, kúluþyrpingin
    Kúluþyrpingin 47 Tucanae
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
00klst 24mín 05,6s
Stjörnubreidd:
-74° 04′ 52,6"
Fjarlægð:
16.700 ljósár
Sýndarbirtustig:
+4,9
Stjörnumerki: Túkaninn
Önnur skráarnöfn:
NGC 104, Caldwell 106

Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille uppgötvaði 47 Tucanae árið 1751 þegar hann var við stjörnuathuganir á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Vegna þess hve hún er sunnarlega á himinhvolfinu hafði hún farið framhjá evrópskum athugendum þar til þá.

Sýndarbirtustig þyrpingarinnar er +4,9 svo hún sést með berum augum við góðar aðstæður. Hún er næst bjartasta kúluþyrping á himninum á eftir Omega Centauri. Henni var þess vegna gefið skráarnúmerið 47 Tucanae eins og um væri að ræða stjörnu í stjörnumerkinu Túkaninum. Þetta númer birtist fyrst í stjörnuskrá sem Þjóðverjinn Johann Elert Bode tók saman árið 1801.

47 Tucanae er um 120 ljósár í þvermál eða á stærð við fullt tungl á himninum. Heildarmssi hennar er um 1 milljón sólmassar. Þyrpingin er svo þétt að bilið milli stjarnanna er oft innan við tíundi hluti úr ljósári, eða sem nemur stærðinni á sólkerfinu okkar. Til samanburðar er vegalengdin til nálægustu stjörnu við sólin, Proxima Centauri, um fjögur ljósár. Ef við byggjum innan í þessari þyrpingu sæjum við að minnsta kosti 10 þúsund skærar stjörnur á himninum, allar nær okkur en næsta stjarna við sólina.

Hingað til hafa fundist að minnsta kosti tuttugu tifstjörnur sem snúast nokkur hundruð til þúsund sinnum á sekúndu. Engar vísbendingar hafa fundist um svarthol í þyrpingunni. Hún er um 10 milljarða ára gömul, tvöfalt eldri en sólkerfið okkar.

Á himninum er 47 Tucanae skammt frá Litla Magellansskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Hún er einfaldlega stórkostleg að sjá í gegnum stjörnusjónauka en sést því miður ekki frá Íslandi. Auðveldast er að finna hana með því að styðjast við sjtörnukort af Túkaninum.

Myndasafn

 Litla Megellanskýið og kúluþyrpingarinar 47 Tucanae og NGC 362  

Litla Magellanskýið og 47 Tucanae

Hér sjást Litla Magellanskýið og kúluþyrpingarnar 47 Tucanae (efri) og NGC 362 (neðri). Myndin var tekin með 180mm f/2,8 Nikkor linsu á Nikon D80 DSLR myndavél á Takahashi EM-200 sjónaukastæði í júní 2007 frá San Pedro de Atacama í Chile. 

Mynd: Sævar Helgi Bragason

Heimildir

  1. SpaceTelescope.org - Hubble yields directr proof of stellar sorting in a globular cluster

  2. ESO.org - The Toucan's Diamond - VLT Image of a Unique Swarm of Stars, 47 Tuc

  3. Courtney Seligman - NGC 104

  4. SIMBAD Astronomical Database - 47 Tucanae