Helix þokan

Gormþokan NGC 7293

  • Helix nebula, Gormþokan, NGC 7293
    Gormþokan (Helix nebula) er hringþoka í Vatnsberanum. Mynd: ESO
Helstu upplýsingar
Tegund: Hringþoka
Stjörnulengd:
22klst 29mín 38,55sek
Stjörnubreidd:
-20° 50′ 13,6″
Fjarlægð:
700 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,6
Stjörnumerki: Vatnsberinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 7293

Gormþokan er eitt nálægasta og besta dæmið um hringþoku. Þetta sérkennilega fyrirbæri varð til í andarslitrum stjörnu á borð við sólina. Þegar stjarnan gat ekki lengur viðhaldið ytri lögum sínum tók hún að varpa gasskeljunum út í geiminn, hægt og bítandi. Úr varð hringþoka og í miðju hennar situr stjarna sem er smám saman að þróast í hvíta dverg.

Þokan sjálf er flókin að byggingu. Hún er ryki, jónuðum efnum og sameindagasi sem myndar fallegt en flókið blómlaga form sem skín fyrir tilverknað orkuríks útfjólublás ljóss frá hvíta stjörnunni í miðjunni.

Þótt Gormþokan minni á kleinuhring hafa rannsóknir sýnt að minnsta kosti tvo hringa. Meginhringur Gormþokunnar, sá innri og bjartari, er hér um bil tvö ljósár að þvermáli, næstum helmingur af vegalengdinni milli sólar og næstu stjörnu. Í heild nær þokan þó að minnsta kosti fjögur ljósár út frá hvíta dvergnum.

Gormþokan er álitin í kringum 10 þúsund ára gömul. Þetta mat er byggt á mælingum á útþensluhraða gassins. Bjarti innri hringurinn þenst út á um 100.000 km hraða á klukkustund.

Í gegnum sjónauka

Þótt Gormþokan sé tiltölulega nálæg og stórglæsileg á ljósmyndum getur verið nokkuð snúið að koma auga á hana í gegnum sjónauka því hún dreifist yfir stórt svæði á himninum — um fjórðung af stærð fulls tungls. Hægt er að sjá hana með handsjónauka eða litlum stjörnusjónauka við mjög góðar aðstæður.

Gormþokan sést frá Íslandi, naumlega þó því hún rís aldrei hátt yfir sjóndeildarhringinn.

Tengt efni

Myndir

Helix nebula, Gormþokan, NGC 7293

Víðmynd af Gormþokunni

Víðmynd af svæðinu í kringum Gormþokuna sem búin var til úr gögnum Digitzed Sky Survey 2. Þokan er björt og áberandi á miðri mynd og ef vel er að gáð sjást fjölmargar daufar vetrarbrautir í bakgrunni. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin.

Helix nebula, Gormþokan, NGC 7293  

Gormur í nýjum búningi

VISTA sjónauki ESO tók þessa óvenjulegu mynd af Gormþokunni (NGC 7293), hringþoku í um 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Litmyndin var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum innrauðar Y, J og K síur. Í innrauðu ljósi sést vel hve víðfeðm þokan er. Mynd: ESO/VISTA/J. Emerson. Þakkir: Cambridge Astronomical Survey Unit

Sjá nánar eso1205

Helix nebula, Gormþokan, NGC 7293, Spitzer geimsjónaukinn  

Rykug Gormþoka

Mynd Spitzer geimsjónauka NASA af Gormþokunni. Myndin sýnir þokuna í innrauðu ljósi. Blái liturinn sýnir innrautt ljós með 3,6 míkrómetra bylgjulengd; græni innrautt ljós með 5,8 míkrómetra bylgjulengd og rautt sýnir innrautt ljós með 24 míkrómetra bylgjulengd. Mynd: NASA/JPL-Caltech/K. Su (Univ. of Arizona)

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Helix þokan. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/ngc-skrain/helix-thokan (sótt: DAGSETNING).