NGC 3532

Óskabrunnsþyrpingin

Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
11klst 05mín 33s
Stjörnubreidd:
-58° 43,8′
Fjarlægð:
1320 ljósár
Sýndarbirtustig:

Stjörnumerki: Kjölurinn
Önnur skráarnöfn:
Caldwell 91

NGC 3532 er björt lausþyrping í um 1300 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er stundum kölluð Óskabrunnsþyrpingin því hún minnir um margt á silfurpeninga á botni brunns. Einnig hefur hún verið kölluð Fóboltaþyrpingin en það fer eftir því hvoru megin Atlantshafsins maður býr hvort sú nafngift sé viðeigandi. Það nafn er dregið af sporöskjulaga útliti þyrpingarinnar, séð í gegnum sjónauka, sem mörgum finnst líkjast rúbbíbolta.

Þessi bjarta stjörnuþyrping sést vel með berum augum frá suðurhveli Jarðar. Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille fann þyrpinguna árið 1752 er hann dvaldi við rannsóknir í Suður Afríku og skrásetti hana þremur árið síðar, eða árið 1755.

NGC 3532 er næstum tvöfalt stærri að flatarmáli á himninum en fullt tungl. John Herschel lýsti henni sem þyrpingu með „nokkrum fallegum tvístirnum“ er hann skoðaði hana frá Suður Afríku upp úr 1830. Mun nær okkur í tíma var NGC 3532 fyrsta viðfangsefni Hubble geimsjónauka NASA og ESA hinn 20. maí árið 1990.

Stjörnuþyrpingin er um 300 milljón ára gömul og því miðaldra á mælikvarða lausþyrpinga. Meðalmassastjörnur sem mynduðust í þyrpingunni í upphafi skína enn skært og gefa frá sér bláhvítan lit, á meðan efnismeiri stjörnur í þyrpingunni hafa þegar klárað vetnisforða sinn og eru orðnar að rauðum risastjörnum. Fyrir vikið eru bæði bláar og appelsínugular stjörnur í þyrpingunni. Efnismestu stjörnurnar sem urðu til í þyrpingunni hafa fyrir löngu lifað stutta ævi sína á enda og sprungið sem sprengistjörnur. Innan um þessar stjörnur er einnig fjöldi annarra massaminni stjarna sem lifa lengur og gefa frá sér gulan og rauðan bjarma. Í NGC 3532 eru um 400 stjörnur í heild.

Heimildir