NGC 891

  • NGC 891, Þyrilvetrarbraut, á rönd
    NGC 891 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Andrómedu sem við sjáum algerlega á rönd. Hún liggur í um 30 milljóna ljósára fjarlægð. Mynd: NASA & ESA/Hubble.
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilvetrarbraut
Stjörnulengd:
02klst 22mín 33,4s
Stjörnubreidd:
+42° 20′ 57"
Fjarlægð:
30 milljón ljósár
Sýndarbirtustig:
+10,8
Stjörnumerki: Andrómeda
Önnur skráarnöfn:
Caldwell 23

Ensk-þýski stjörnufræðingurinn William Herschel uppgötvaði vetrarbrautina þann 6. október árið 1784.

NGC 891 er um 100.000 ljósár í þvermál. Upphaflega var talið að hún líktist okkar eigin vetrarbraut ef við sæjum hana á hlið en rannsóknir hafa leitt í ljós að langir þræðir úr gasi og ryki teygja sig nokkur hundruð þúsund ljósár út úr fleti hennar og út í hjúpinn. Stjörnufræðingar telja að rekja megi þessa þræði til efnis sem sprengistjörnur þeyta frá sér eða til öflugra stjörnumyndunarsvæða.

NGC 891 er hluti af litlum vetrarbrautahópi, NGC 1023 hópnum sem þyngdarkrafturinn bindur saman. Þessi hópur er hluti af Grenndar-ofurþyrpingunni.

NGC 891 sést í litlum og meðalstórum sjónaukum sem dauf ílöng lína. Í stærri sjónaukum sést rykslæðan. Notast þarf við stjörnukort af Andrómedu til að finna vetrarbrautina sem er skammt vestan við stjörnuna Almak (Gamma Andromedae).

Heimildir

  1. Stjörnufræðivefurinn - Fegurð á rönd

  2. Courtney Seligman - NGC 891

  3. SIMBAD Astronomical Database - NGC 891