Sólskoðun

  • sólin, sólstjarna, stjarna, sólin okkar
    Sólin okkar séð með SOHO geimfarinu.

Sólin er geysilega björt, svo björt að ef horft er á hana með berum augum, þótt ekki sé nema í smástund, getur það valdið augnskaða. Enn verra er að nota einhvers konar sjóntæki á borð við handsjónauka eða stjörnusjónauka án viðeigandi sólarsía. 

Einfaldasta og öruggasta leiðin til að skoða sólina er að notast við viðurkenndar sólarsíur eins og þær sem fást hjá Sjónaukar.is. Sólarsíur eru alltaf settar framan á sjónaukana og koma veg fyrir að skaðleg geislun berist inn í sjónaukann. Þessar síur hleypa aðeins 100.000 hluta ljóssins í gegn og sía burt skaðlega útfjólubláa og innrauða geisla og tryggja að sólin verður nægilega dimm til þess að auðvelt sé að skoða hana á öruggan. Aldrei skal nota sólarsíur sem settar eru á augnglerin sjálf (slíkar síur skjóta oftast upp kollinum á vefsíðum á borð við E-Bay) þar sem þær gera ekkert gagn.

Algengustu sólarsíurnar eru svokallaðar White Light síur sem gera stjörnuáhugamönnum kleift að sjá sólina í sínu hefðbundna hvíta ljósi. Í gegnum slíkar síur sjást sólblettir á ljóshvolfi sólar sérstaklega vel.

Á síðustu árum hafa sérstakir sólarsjónaukar notið mikilla vinsælda meðal stjörnuáhugamanna. Munurinn á sólarsjónaukum og sólarsíunum er sá að sólarsjónaukarnir eru með innbyggðri síu sem hleypir aðallega í gegnum sig vetnis-alfa (H-α) geislun frá vetni í lithvolfi sólarinnar. Því sjást ýmis smáatriði og fyrirbæri (t.d. sólstrókar) sem ekki er hægt að greina með sólmyrkvagleraugum, gler- eða filmusíum þar sem geislun frá ljóshvolfi sólarinnar er ráðandi.

Einföldustu aðferðirnar 

sólskoðun, sólarsía, solar filter
Fólk skoðar sólina á öruggan hátt með sólarsíugleraugum og sólarsjónaukum. Mynd: Stjörnufræðivefurinn.

Það þarf ekki sjónauka til að fylgjast með sólinni. Allt sem til þarf er viðeigandi sía eða rafsuðugler, helst af styrkleikanum 14, sem fæst í næstu byggingavöruverslun. Rafsuðugler eru hentug fyrir sólskoðun: unnt er að skoða sólina með báðum augum og þótt slík gler framkalli græna slikju af sólinni, eru glerin mjög ódýr. Gæðin er hins vegar ekki jafngóð og þegar notaður er handsjónauki eða stjörnusjónauki með viðeigandi síu.

Það sem þarf að varast: Stundum kemur fyrir að mælt er með einhvers konar ljóssíum sem eru alls ekki öruggar. Þar má nefna reyklitað gler, stafla af sólgleraugum, myndavélasíur, sælgætisbréf, diskettur og geisladiska. Þótt allir þessir hlutir dragi nokkuð úr birtu sólarinnar, sleppur önnur hættuleg geislun hæglega í gegn og getur skaðað augun. Einnig á að forðast það að nota myndavél með myndavélalinsu, jafnvel þótt ljósmyndasía á linsunni virðist dekkja sólina.

Með ódýrum sólmyrkvagleraugum má horfa beint á sólina án þess að hljóta nokkurn skaða af. Hægt er að kaupa sólmyrkvagleraugu hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Sólvörpun

Önnur aðferð til sólskoðunar krefst alls engra sía og nefnist sólvörpun. Augngleri er þá komið fyrir á fókus sjónaukans og það notað til að varpa mynd af sólinni á flatt yfirborð, t.d. autt blað. Lítill linsusjónauki er hentugastur þótt spegilsjónaukar virki líka ágætlega. Þeir eru venjulega langir og mjóir með glerlinsu á ljósopsendanum og fókusstillingu og augngleri á hinum. Fyrst er pappaskjöldur festur á hólkinn við fremri endann (þeim sem er beint út í loftið) og svo er leitarsjónauki hulinn eða fjarlægður (vegna hættu á að einhver horfi í gegnum hann). Einnig er hægt að nota handsjónauka en þá verður að festa vel og vandlega á þrífót, leggja síðan hlíf yfir aðra fremri linsuna og setja pappaskjöld umhverfis hinn endann (þann sem venjulega er horft í gegnum).

Ekki þarf mikla stækkun til að horfa á sólina (e.t.v. 25-35x) enda er sólskífan um hálf gráða í þvermál. Mælt er með því að fólk noti ódýrt augngler (t.d. 20 mm) en hætti ekki dýrum og flóknum augnglerjum við sólskoðun.

Helsta vandamálið við að varpa sólinni á spjald eða skerm felst í að beina sjónaukanum í rétta átt á öruggan máta. Til þess skal aldrei líta í gegnum sjónaukann og leita að sólinni, heldur á að hreyfa hann til þar til sólarljósið fellur úr augnglerinu og á flatt hvítt yfirborð.

ALLS EKKI HORFA Í GEGNUM SJÓNAUKANN! Settu hvítt spjald þar sem þú horfir venjulega í gegnum augnglerið og skerptu myndina. Þú verður svo sjálf(ur) að finna út hentugustu fjarlægð spjaldsins frá augnglerinu, svo þú náir besta samspili stærðar og birtu sólarinnar á varpspjaldinu.

Þessi aðferð hefur einn kost umfram alla aðra: margir geta fylgst með sólinni á sama tíma. Ef þú ert að skoða sólina með hópi fólks, skaltu aldrei skilja sjónaukann eftir eftirlitslausan — sér í lagi ef börn eru nærri.

Sólin og sjónaukinn

Hægt er að útbúa tæki til sólskoðunar á ýmsan hátt. Flestir velja sér annað hvort gler- eða filmusíur sem einfaldlega eru festar framan á ljósop sjónaukans. Þetta er ein öruggasta aðferðin. Síur af þessu tagi eru útbúnar sérstökum ljóshöfnunarlögum, sem hleypa einungis broti úr prósenti af sólarljósinu inn í sjónaukann. Þessar síur verja ekki aðeins augun heldur líka allan búnaðinn, því hættulegur hiti frá sólinni kemst aldrei inn í sjónaukann.

Glersíur framkalla venjulega gula eða appelsínugula mynd af sólinni, en filmusíurnar mynda bláa eða bláhvíta sól. Filmusíur eru oft skarpari.

Sólskoðun með sjónaukum er tiltölulega einföld því flestir söluaðilar sjónauka bjóða síur sem smellpassa á sjónaukana. Eina fyrirhöfnin er að festa síuna framan á hólkinn svo sían detti örugglega ekki af og þá er allt klappað og klárt. Alls ekki gleyma að hylja eða fjarlægja leitarsjónaukann svo sólarljós fari ekki þar í gegn. Þeim mun stærri sem sjónaukinn er, þeim mun meira ljós safnast saman og þar af leiðandi er betri upplausn. Hins vegar er betra að nota smærri sjónauka þegar kemur að sólskoðun. Ástæðan er sú að við erum ekki að reyna safna ljósinu frá daufu fyrirbæri, heldur að draga úr hinni gífurlegu birtu sem sólin sendir frá sér.

Tryggðu að síurnar séu tryggilega festar á sjónaukann svo þær detti ekki af eða að golan blási þeim burt, til dæmis með því að festa þær líma með límbandi.

Til eru sérstakir sólarsjónaukar sem eru að jafnaði mun dýrari en sólarsíur. Sjónaukarnir eru litlir og meðfærilegir en gefa skarpa mynd af fyrirbærum á yfirborði sólarinnar og á jaðri hennar.

Munurinn á sólarsjónaukum og sólarsíunum er sá að sólarsjónaukarnir eru með innbyggðri síu sem hleypir aðallega í gegnum sig vetnis-alfa (H-α) geislun frá vetni í lithvolfi sólarinnar. Því sjást ýmis smáatriði og fyrirbæri (t.d. sólstrókar) sem ekki er hægt að greina með gleraugum, gler- og mylarsíum þar sem geislun frá ljóshvolfi sólarinnar er ráðandi.

„H-alfa“ er stytting á „Hydrogen-alpha“ sem er fyrsta útgeislunarlína vetnis með öldulengdina 656,3 nm (6563 Ångström).

Hvað er að sjá á sólinni?

Það fer eftir gæðum sjóntækjanna og aðstæðum við sólskoðun hvað sést á sólinni. Ódýr sólarsíugleraugu (eins og sjást ofar á síðunni) eða rafsuðugler stækka ekki sólina en með þeim má samt sjá stóra sólbletti. Einnig eru þau afar hentug til þess að fylgjast með sólmyrkvum. Með því að varpa sólinni upp á spjald með litlum sjónauka og stækka hana má skoða minni sólbletti og er sú aðferð tilvalin við kennslu.

Sólin snýst umhverfis sjálfa sig á rúmum 25 dögum (við miðbaug) og því er áhugavert að sjá sólblettina færast á milli daga (Galileó uppgötvaði snúning sólarinnar með þessari aðferð). Einnig má sjá að sólin er ögn dekkri við jaðrana en í miðjunni. Skýringin er sú að við þurfum að horfa í gegnum meira efni til að sjá inn í ljóshvolfið og styrkur geislunnarinnar er því minni en á miðri sólskífunni.

Sólarsíur úr gleri eða Mylar gera athugendum kleift að stækka sólina enn frekar með sjónauka. Sérsmíðaðir sólarsjónaukar leiða svo í ljós ótal smáatriði á sólinni og á jaðri hennar (en á móti kemur að þá er einungis hægt að nota við sólskoðun).