• Herðatrésþyrpingin
    Herðatrésþyrpingin í Litlarefi. Mynd: Wikimedia Commons.

Herðatréð

Collinder 399

Um það bil tvær gráður vestur af M27 í stjörnumerkinu Litlarefi er að finna sérkennilegan hóp 20-30 mjög dreifðra stjarna. Af þeim eru tíu stjörnur áberandi bjartastar eða af fimmta og sjöunda birtustigi. Sex þeirra mynda beina línu en hinar fjórar krók sem stendur út úr línunni miðri sunnanmegin. Útlínur hópsins minna óneitanlega á herðatré á hvolfi og er hópurinn því oft nefndur Herðatréð.

Þyrpinguna uppgötvaði persneski stjörnufræðingurinn Abd-al Rahman Al Sufi og lýsti hann henni í riti sínu Um fastastjörnurnar árið 964 e.Kr. Á fyrri hluta 17. aldar enduruppgötvaði síðan ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Hodierna þyrpinguna. Athyglisvert er að hvorki Charles Messier né William Herschel og sonur hans John skráðu þyrpinguna í stjörnuskrár sínar, líklegast vegna þess hve víðfeðm hún er á himninum.

Þessi fallega þyrping er stundum nefnd þyrping Brocchis eftir bandaríska stjörnuáhugamanninum D.F. Brocchi sem kortlagði hana í kringum 1920. Ellefu árum síðar eða 1931 rataði þyrpingin í skrá sænska stjörnufræðingsins Per Colliander yfir lausþyrpingar, sú 399 í röðinni. Hún er þar af leiðandi einnig kölluð Cr 399.

Stærstan hluta 20. aldar töldu stjörnufræðingar að hópurinn væri venjuleg stjörnuþyrping en undir lok aldarinnar komu fram gögn sem kollvörpuðu þeirri skoðun. Rannsókn á gögnum frá evrópska gervitunglinu Hipparkos leiddu í ljós að hér er ekki um hefðbundna stjörnuþyrpingu að ræða heldur samstirni þar sem stjörnurnar raðast fyrir tilviljun í sömu sjónlínu frá okkur séð. Allar stjörnurnar eru í 200 til 1100 ljósára fjarlægð en misbjartar svo þær virðast samankomnar í eina þyrpingu. Stjörnurnar hreyfast heldur ekki saman um geiminn heldur allar hver í sína áttina.

Herðatrésþyrpinginuna er auðvelt að finna á himninum enda nokkuð áberandi, jafnvel með berum augum. Hún sést vel í gegnum handsjónauka eða litla stjörnusjónauka með vítt sjónsvið.