Áttungurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Áttungurinn
    Kort af stjörnumerkinu Áttungnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Octans
Bjartasta stjarna: ν Octantis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
27
Stjörnur bjartari +3,00:
Engin
Nálægasta stjarna:
LHS 531
(28 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Áttungurinn er eitt þeirra fjórtán stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til þegar hann kortlagði suðurhimininn frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku milli 1751-52.

Lacaille nefndi merkið upphaflega l'Octans de Reflexion og kemur það fyrst fram á korti sem kom út árið 1755. Lacaille nefndi merkið eftir kvaðranti, tæki sem er áttundi hluti úr hring og var fundið upp árið 1730 og notað í siglingafræði til að mæla hæð fyrirbæra á himninum. Þegar önnur útgáfa kortsins kom út árið 1763 hafði Lacaille stytt nafn merkisins í Octans eða Áttunginn.

Stjörnur

Áttungurinn er á suðurpóli himins og er pólhverft séð frá suðurhveli jarðar sem þýðir að það er alltaf yfir sjóndeildarhring. Öfugt við Litlabjörn á norðurpóli himins er engin áberandi stjarna í merkinu sem kalla mætti suðurpólstjörnu. Stjarnan σ (sigma) Octanis er reyndar mjög nálægt pólnum en svo dauf að hún sést vart með berum augum (sýndarbirtustig nærri +6).

ν (ny) Octantis er bjartasta stjarna Áttungsins en sýndarbirtustig hennar er aðeins +3,76. ν Octantis er stjarna af K-gerð í 69 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 17 sinnum bjartari en sólin okkar, um 6 sinnum breiðari, 1,4 sinnum massameiri en örlítið kaldari.

Eftir um 100 milljónir ára breytist ν Octantis í rauðan risa sem verður 60 sinnum bjartari og 15 sinnum stærri en stjarnan er í dag. Miðað við massa stjörnurnar og þróunarstig er hún líklega um 12 milljarða ára gömul.

ν Octantis er tvístirni. Förunauturinn er dvergstjarna af K eða M-gerð og aðeins 0,5 sólmassar. Þessi förunautur er í um tveggja stjarnfræðieininga fjarlægð frá ν Octantis og hringsólar um hana á 2,8 árum.

σ Octantis er risastjarna af gerðinni F0 í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 5,42). Hún er sú stjarna, sem er næst suðurpól himins og ber þess vegna nafnið Polaris Australis.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Áttungurinn
Stjörnumerkið Áttungurinn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum.

Engin áberandi djúpfyrirbæri eru í Áttungnum.

Stjörnukort

Kort af stjörnumerkinu Áttungnum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir