Bikarinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Bikarinn
  Kort af stjörnumerkinu Bikarnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Crater
Bjartasta stjarna: δ Crateris
Bayer / Flamsteed stjörnur:
12
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
LHS 2358
(34,9 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Eta Craterids
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Uppruni

Þegar þorsti sótti að sólarguðinum Apolló sendi hann hrafninn með vatnsbikar til að sækja vatn úr lind. Hrafninn flaug með bikarinn í klóm sínum en þegar fíkjutré með óþroskuðum ávöxtum varð á vegi hans, ákvað hann að hvílast í nokkra daga og hinkra eftir að ávextirnir yrðu fullþroskaðir. Á meðan neyddist Apolló til að sækja sér vatn sjálfur.

Eftir að hrafninn hafði étið gómsætan ávöxtinn, náði hann loks í vatnið en tók í leiðinni upp vatnasnák og flaug með hann til baka. Hrafninn sagði Apolló að snákurinn hefði tafið sig við að sækja vatnið. Apolló sá í gegnum lygina og dæmdi hrafninn til eilífs þorsta — ein útskýringin á hvæsandi krunki hrafnsins.

Til að minnast þessa atburðar kom Apolló hrafninum, bikarnum og vatnaskrímslinu fyrir á himninum. Þar reynir hrafninn að kroppa í vatnaskrímslið og seilast eftir bikarnum til að svala þorstanum. Bikarinn er sýndur sem glæsilegur kaleikur með tveimur handföngum sem hallar að hrafninum en er utan seilingar. Vatnaskrímslið er svo veran sem Herakles drepur í annarri goðsögn.

Stjörnur

Í Bikarnum eru engar stjörnur bjartari en þriðja birtustig en á tunglskinslausri nóttu við bestu aðstæður er hægt að koma auga á rúman tug stjarna með berum augum. Helstu stjörnur merkisins eru:

 • α Crateris eða Alkes er appelsínugulur risi af K-gerð í um 175 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn hennar á arabísku, Alkes, merkir „vínbikarinn“ en er líka augljóslega tengt orðinu alkóhól. Alkes er um þúsund celsíusgráðum kaldari en sólin en þrettán sinnum breiðari og meira en tvisvar sinnum massameiri.

 • γ Crateris er stjarna af A-gerð í um 82 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tvöfalt heitari en sólin og næstum tvöfalt massameiri en aðeins fimmtíu prósent breiðari.

 • δ Crateris er appelsínugulur risi af K-gerð (eins og Alkes) í um 195 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum þúsund selsíusgráðum kaldari en sólin en meira en tuttugu sinnum breiðari og tvisvar sinnum massameiri. Delta Crateris er bjartasta stjarna Bikarsins.

Djúpfyrirbæri

Hrafninn, bikarinn, vatnaskrímslið, stjörnumerk
Hrafninn, Bikarinn og Vatnaskrímslið á himninum. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Fremur fá djúpfyrirbæri er að finna í Bikarnum en þó nokkrar þyrilvetrarbrautir sem hægt er að sjá : NGC 3511, NGC 3887, NGC 3981. Allar eru þó fremur daufar.

Loftsteinadrífa

Ein loftsteinadrífa er kennd við stjörnumerkið Bikarinn, Eta Craterids. Drífan er fremur veik en best sjáanleg frá suðurhveli jarðar milli 11.-22. janúar ár hvert en hámarkið er í kringum 16.-17. janúar. Loftsteinarnir eru yfirleitt frekar daufir.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales – Corvus the Crow and Crater the Cup

 2. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alkes.html

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/gammacrt.html

 4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/deltacrt.html

 5. http://meteorshowersonline.com/showers/eta_craterids.html