Borðið

  • stjörnukort, stjörnumerki, Borðið
    Kort af stjörnumerkinu Borðinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Mensae
Bjartasta stjarna: α Mensae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
16
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
α Mensae
(33,1 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Borðið er næst syðsta stjörnumerki himins. Það sést því nánast ekkert frá norðurhveli (hugsanlega aðeins rétt norðan miðbaugs). Aðeins stjörnumerkið Áttungurinn er sunnar, en það situr beint yfir suðurpóli himins.

Uppruni

Árin 1751-52 dvaldi franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille í Höfðaborg. Þaðan skrásetti hann himinhvelfinguna og bjó þá til stjörnumerkið Borðið.

Í Borðinu er hluti af Stóra Magellansdkýinu. Segja má að Borðið sé hulið hvítu skýjunum, sem eru ekki ósvipuð borðdúki, sem stundum sést leggjast yfir hið raunverulega Borðfjall í sterkri suðaustanátt í Höfðaborg.

Stjörnur

Í Borðinu eru engar bjartar og áberandi stjörnur. Birtustig Alfa Mensae, björtustu stjörnu merkisins, er 5,09 og því rétt sýnileg með berum augum.

Alfa Mensae er ein af fáum stjörnum á himinhvelfingunni sem líkjast mjög sólinni okkar og sjást með berum augum. Hún er G6 dvergur, um 5500°C, í um 33 ljósára fjarlægð. Stjarnan gefur því góða hugmynd um hvernig sólin okkar myndi líta út í sömu fjarlægð. Komið hefur í ljós að stjarnan snýst frekar hægt. Hún er aðeins 32 daga að ljúka einum snúningi, viku lengur en sólin okkar. Það bendir til þess að Alfa Mensae sé gömul stjarna, líklega um rétt um 10 milljarða ára. Sterkt segulsvið stjarna hefur tilhneigingu til að hægja á snúningu eftir því sem þær eldast.

Alfa Mensae er líklega 25% járnríkari en sólin okkar. Stjarna sem inniheldur þung frumefni er líkleg til að hafa eigið sólkerfi (reikistjörnur eru úr þungum frumefnum). Hingað til hafa þó engar fjarreikistjörnur fundist á braut um Alfa Mensae.

Borðfjall, Table Mountain, South Africa
Borðfjall í Höfðaborg í Suður-Afríku. Mynd: Sævar Helgi Bragason

Stjörnukort

Stjörnukort af Borðinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Mensa the table mountain

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Mensa_(constellation)