Gíraffinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Gíraffinn
  Kort af stjörnumerkinu Gíraffanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Camelopardalis
Bjartasta stjarna: β Camelopardalis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
36
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
LHS 2459
(18 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Október Camelopardalítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Hollenski guðfræðingurinn og stjörnufræðingurinn Petrus Plancius bjó til stjörnumerkið Gíraffan árið 1612. Merkið birtist fyrst á hnattlíkani hans það ár.

Nákvæm þýðing merkisins er á huldu. Þýski stjörnufræðingurinn Jacob Bartsch sýndi merkið á korti sínu frá 1624 og sagði það tákna kameldýrið sem Rebekka reið á til Kanaan til að giftast Ísak eins og lýst er í opinberunarbókinni í biblíunni. Stjörnumerkið er hins vegar gíraffi en ekki kameldýr svo útskýring Bartsch er ófullnægjandi.

Stjörnur

Gíraffinn er á svæði á himninum milli Stórabjörns og Kassíópeiu sem grísku stjörnufræðingarnir skildu eftir því á því eru engar stjörnur bjartari en fjórða birtustig.

 • β Camelopardalis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Gíraffanum (birtustig 4,0). Hún er gulur reginrisi af gerðinni G1 sem er rúmlega 6 sinnum massameiri en sólin, 62 sinnum breiðari og næstum 4000 sinnum bjartari. Hún er í um það bil 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • CS Camelopardalis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Gíraffanum (birtustig 4,21). Hún er tvístirni þar sem stærri og bjartari stjarnan er reginrisi af B9-gerð, meira en sautján sinnum massameiri en sólin og rúmlega 63 sinnum breiðari. CS Camelopardalis er í um 4.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • α Camelopardalis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Gíraffanum (birtustig 4,26). Hún er reginrisi af gerðinni O9.5 sem er 620.000 sinnum bjartari en sólin, 31 sinnum massameiri og 29 sinnum breiðari. Þessi risavaxna stjarna er næstum sex sinnum heitari en sólin eða um 30.000°C en miklu yngri eða aðeins um 2 milljóna ára gömul.

 • BE Camelopardalis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Gíraffanum (birtustig 4,39). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M2 í næstum 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • U Camelopardalis er kolefnisstjarna. Hún er óstöðug og sendir frá sér gasskeljar á nokkurra árþúsunda fresti.

Djúpfyrirbæri

Gíraffinn er við norðurpól himins og þar af leiðandi langt frá fleti vetrarbrautarinnar. Í merkinu eru ekki ýkja margar lausþyrpingar eða geimþokur en þeim mun fleiri vetrarbrautir.

 • NGC 1502 er lausþyrping í um 3.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru 45 tiltölulega bjartar stjörnur sem sjást í gegnum litla stjörnusjónauka. Um hálfa gráðu suður af þyrpingunni er rauða kolefnisstjarnan UV Cam.

 • NGC 1569 er dvergvetrarbraut í um 11 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • NGC 2403 er þyrilvetrarbraut í um 8 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er helmingi minni en vetrarbrautin okkar og inniheldur fjölmörg röfuð vetnisský. Birtustig hennar er +8,9 svo hægt er að koma auga á hana með handsjónauka, þótt hún njóti sín öllu betur í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun.

Loftsteinadrífur

Október Camelopardalítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem sést í október og er í hámarki í kringum 6. þess mánaðar. Við hámarkið sjást einn til tveir loftsteinar á klukkustund. Drífan uppgötvaðist árið 2005 en ekki er vitað til hvaða halastjörnu hana megi rekja.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Gíraffinn
Stjörnumerkið Gíraffinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Gíraffanum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Camelopardalis the giraffe

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Camelopardalis

 3. What's Up: Camelopardalis

 4. Jim Kaler's Stars

 5. The 2005 October 5 outburst of October Camelopardalis