Hegrinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Hegrinn
    Kort af stjörnumerkinu Hegranum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Grus
Bjartasta stjarna: α Grus
Bayer / Flamsteed stjörnur:
28
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Gliese 832
(16,1 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Stjörnumerkið Hegrinn á rætur að rekja til loka 16. aldar. Þá bjó hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius til merkið út frá þeim stjörnum sem landar hans, sæfarendurnir Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman, skrásettu í fyrstu leiðangrum Hollendinga til Austur Indía. Stjörnumerkið birtist fyrst á hnattlíkandi Planciusar og landa hans Jodocus Hondius í Amsterdam árið 1598.

Stjörnumerkið Hegrinn er nefnt eftir samnefndum vaðfugli sem flokkast til pelíkana. Þeir hafa langan háls og fljúga með hann inndreginn. Merkið var búið til úr stjörnum sem eru suður af Suðurfisknum.

Til skamms tíma snemma á 17. öld var merkið kallað Phoenicopterus eða Flamingóinn.

Engar goðsagnir tengjast merkinu en í grískri goðafræði var hegrinn heilagur Hermesi.

Stjörnur

  • α Gruis eða Alnair er bjartasta stjarnan í Hegranum (birtustig +1,7). Hún er stjarna á meginröð af B6-gerð, rúmlega tvöfalt heitari en sólin (13.800°C), fjórum sinnum massameiri, rúmlega þrisvar sinnum breiðari og 263 sinnum skærari. Arabískt heiti stjörnunnar, Alnair eða Al Nair, merkir „sú bjarta“ og dregið af al-Nayyir min Dhanab al-ḥūt sem þýðir „bjarta (stjarnan) sem tilheyrir sporði fisksins“. Í þessu tilviki er fiskurinn stjörnumerkið Suðurfiskurinn enda tilheyrði stjarnan eitt sinn því merki. Alnair er í um 101 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Gruis er næst bjartasta stjarna Hegrans (birtustig 2,1). Hún er rauður risi af M5-gerð, um 2,4 sinnum massameiri en sólin okkar og þónokkuð kaldari eða um 3.300°C. Beta Gruis er um 180 sinnum breiðari en sólin og 2.500 sinnum skærari. Hún er í um 177 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Gruis eða Al Dhanab er þriðja bjartasta stjarna Hegrans (birtustig 3,0). Arabískt heiti hennar merki sporð enda tilheyrði hún eitt sinn stjörnumerkinu Suðurfisknum. Gamma Gruis er risastjarna af B8-gerð, rúmlega tvisvar sinnum heitari en sólin, 390 sinnum bjartari og næstum fimm sinnum breiðari. Stjarnan er í um 211 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hegrinn
Stjörnumerkið Hegrinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Hegranum eru fáein áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 7213 er bjartasta þyrilvetrarbrautin í merkinu, skammt frá alfa Gruis.

  • NGC 7424 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 37,5 milljóna ljósára fjarlægð. Hún er álíka stór og vetrarbrautin okkar.

Stjörnukort

Stjörnukort af Hegranum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Grus the crane

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Grus_(constellation)