Herkúles

 • stjörnukort, stjörnumerki, Herkúles
  Kort af stjörnumerkinu Herkúlesi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Hercules
Bjartasta stjarna: β Herculis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
106
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
Gliese 661
(21 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Loftsteinadrífur:
Tá Herkúlítar
Sést frá Íslandi:

Herkúles er fimmta stærsta stjörnumerkið á himninum. Hann er auðveldast að finna á milli tveggja skærra stjarna, Vegu í Hörpunni og Arktúrusar í Hjarðmanninum. Herkúles þekkist best á fjórum björtum stjörnum sem mynda ferhyrnt mynstur sem er breiðara að ofan en neðan.

Herkúles er best að skoða á kvöldin frá ágúst og fram í byrjun nóvember.

Uppruni

Forngrikkir þekktu stjörnumerkið upphaflega sem Engonasin sem þýðir „sá sem krýpur“. Á 3. öld f.Kr. tengdi gríski fjölfræðingurinn Eratosþenes merkið við grísku hetjuna Herakles (sem rómverjar kölluðu Herkúles) og tengdi við dráp hans á drekanum sem gætti gulleplatrés Heru (Drekinn er fyrir ofan Herkúles á himninum). Önnur skýring er sú að Herakles krjúpi, særður og þreyttur efitr einn af bardögum sínum. Merkið hefur líka verið tengt við súmerísku hetjuna Gilgamesh.

Herakles var ávöxtur eins af ástarævintýrum Seifs við dauðlega konu, Alkmenu, sem þótti óhemju fögur. Seifur hugðist gera soninn ódauðlegan meðan hann var smábarn með því að leyfa honum að sjúga mjólk úr brjósti Heru. Herakles tók nokkra sopa á meðan Hera svaf en hún vaknaði við bröltið, reif brjóst sitt úr munni Heraklesar svo hún spýttist þvert yfir himininn og myndaði Mjólkurslæðuna (vetrarbrautina).

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Herkúles
Stjörnumerkið Herkúles og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Herakles varð manna stærstur, sterkastur og vopngöfugastur allra. Yfir honum grúfði hins vegar alltaf afbrýðisemi Heru. Hera gat ekki vegið hann en sór þess í stað eið að gera líf hans eins erfitt og mögulegt var. Undir álögum hennar varð Herakles börnum sínum að bana í bræðiskasti. Til að bæta fyrir þá synd spurði Herakles véfréttina í Delfí hvað hann gæti gert. Véfréttin skipaði honum að þjóna Evrýsteifi, konungi Mýkenu, í 12 ár.

Evrýsteifur lagði tólf þrautir fyrir Herakles og leysti hann þær allar af stakri prýði. Fórnarlömbum sumra þrautanna er minnst í ýmsum stjörnumerkjum á himninum, til dæmis Ljóninu, Krabbanum, Vatnaskrímslinu og Drekanum.

Stjörnur

Í Herkúlesi eru engar bjartar stjörnur og aðeins tvær bjartari en birtustig 3. Stjörnurnar Pí Herculis, Eta Herculis, Zeta Herculis og Epsilon Herculis mynda áberandi ferhyrningslaga samstirni sem markar búk Herkúlesar.

 • β Herculis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 2,78). Hún er tvístirni í um 139 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kerfið samanstendur af risastjörnu af gerðinni G7 og meginraðarstjörnu, einnig er af G-gerð. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum 410 dögum. Risastjarnan er tæplega þrisvar sinnum massameiri en sólin og sautján sinnum breiðari en meginraðarstjarnan er örlítið minni en sólin. Beta Herculis ber einnig nafnið Kornephoros sem þýðir „kylfuberinn“.

 • ζ Herculis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 2,81). Hún er tvístirni í um 35 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kerfið samanstendur af undirmálsstjörnu af gerðinni F9 sem er að þróast í risastjörnu og meginraðarstjörnu af gerðinni G7. Undirmálsstjarnan er bæði breiðari og massameiri en sólin og tæplega sjö sinnum bjartari. Meginraðarstjarnan er örlítið minni en sólin okkar og nokkuð daufari. Stjörnurnar snúast umhverfis sameiginlega massamiðju á rúmum 34 árum.

 • δ Herculis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 3,12). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni A3 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Hún er rúmlega tvisvar sinnum stærri en sólin og 20 sinnum bjartari. Delta Herculis ber einnig nafnið Sarin. Hún er í 75 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • π Herculis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 3,16). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 í 377 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er rúmlega þrisvar sinnum massameiri en sólin, 72 sinnum breiðari og yfir 1.300 sinnum bjartari.

 • α Herculis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 3,16). Hún er þrístirni í um 360 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarna kerfisins (Alfa1) er rauð risastjarna, um sjö sinnum massameiri en sólin og næstum 400 sinnum breiðari. Á braut um hana er tvístirni, kerfi risastjörnu af gerðinni G5 og meginraðarstjörnu af gerðinni F2. Alfa Herculis ber einnig nafnið Rasalgethi sem þýðir „höfuð þess sem krýpur“.

 • λ Herculis er appelsínugul risastjarna af gerðinni K4 í um 370 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Herkúlesi. Hún ber einnig nafnið Maasym sem þýðir „úlnliður“.

 • ω Herculis er stjarna af gerðinni B9 í um 240 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Herkúlesi (birtustig 4,58). Hún ber einnig nafnið Kajam sem þýðir „kylfan“.

Djúpfyrirbæri

Í Herkúlesi eru tvær bjartar kúluþyrpingar, þar af bjartasta kúluþyrpingin á norðurhveli himins.

 • Messier 13 er stór og björt kúluþyrping í 25.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 145 ljósár í þvermál og inniheldur líklega í kringum þrjú hundruð þúsund stjörnur. Messier 13 sést með berum augum sem daufur þokublettur á himninum þar sem ljósmengun spillir ekki fyrir milli stjarnanna Eta og Zeta í Herkúlesi. Hún er stórglæsileg að sjá í gegnum stjörnusjónauka.

 • Messier 92 er önnur stór og björt kúluþyrping í um 26.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést með berum augum við góðar aðstæður en í gegnum stjörnusjónauka sést að hún er þéttari og minni en Messier 13.

 • NGC 6210 er hringþoka í um 6.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún fannst árið 1825 og sést best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Tá Herkúlítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 19. maí til 19. júní og er í hámarki 9. júní. Drífuna má rekja til halastjörnunnar Schwassmann-Wachmann 3.

Stjörnukort

Stjörnukort af Herkúlesi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Hercules

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Hercules_(constellation)

 3. http://meteorshowersonline.com/showers/tau_herculids.html