Höfrungurinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Höfrungurinn
  Kort af stjörnumerkinu Höfrungnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Delphinus
Bjartasta stjarna: β Delphini
Bayer / Flamsteed stjörnur:
19
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
HU Del
(29 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Höfrungar tengjast tveimur sögum úr grískri goðafræði.

Fyrri sagan segir frá gríska sjávarguðinum Póseidon. Þegar hann hafði byggt sér glæsilega neðansjávarhöll fannst honum hún heldur tómleg án eiginkonu og leitaði sér að einni. Póseidon varð ástfanginn af Amfitrítu, fallegri sjávardís, en hún hafði lítinn áhuga og leitaði skjóls meðal hinn sjávardísanna. Póseidon sendi sendiboða sína eftir henni, þar á meðal höfrung, sem fann hana og sannfærði um að gangast við ósk Póseidons. Í þakklætisskyni kom Póseidon fyrir mynd af höfrungnum meðal stjarnanna.

Hin sagan segir að stjörnumerkið Höfrungurinn sé sá höfrungur sem bjargaði lífi skáldsins og tónlistarmannsins Aríons á 7. öld f.Kr. Aríon fæddist á eyjunni Lesbos og var gæddur svo miklum tónlistarhæfileikum að hróður hans barst víða. Einkum þótti hann lipur hörpuleikari. Á siglingu á leið heim til Grikklands eftir hljómleikaferðalag um suður Ítalíu, lögðu sjómenn nokkrir á ráðinn um að myrða hann og ræna því litla fé sem Aríon hafði þénað á ferðalaginu.

Þegar sjómennirnir umkringdu Aríon með sverðum sínum, spurði hann hvort honum leyfðist að syngja eitt lítið lag að lokum. Sjómennirnir féllust á það en með undurfögrum söng sínum og hljóðfæraleik, laðaði hann höfrunga að bátnum. Aríon setti örlög sín í hendur guðanna og stökk útbyrðis. Einn höfrunganna bar hann á bakinu alla leið til Grikklands. Þegar heim var komið stóð Aríon andspænis árásarmönnunum og fékk þá dæmda til dauða. Í þakklætisskyni fyrir lífsbjörgina, kom tónlistar- og ljóðlistaguðinn Apolló höfrungnum fyrir meðal stjarnanna, auk hörpu Aríons.

Stjörnur

Stjörnur Höfrungsins eru allar fremur daufar en tvær þeirra bera skringileg nöfn, Sualocin (alfa) og Rotanev (beta). Þessi nöfn birtust fyrst í skrá sem ítalski stjörnufræðingurinn Giuseppi Piazzi tók saman árið 1814. Lesin afturábak mynda þau nöfnin Nicolaus og Venator, latneskar útgáfur af nafni Niccolo Cacciatore, sem var aðstoðarmaður Piazzis og arftaki hans í stjörnustöðinni í Palermo. Oft er sagt að Cacciatore sjálfur hafi búið þessi nöfn en allt eins líklegt er að Piazzi sjálfur hafi gert það.

 • β Delphini er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höfrungnum (birtustig 3,64). Hún er tvístirni sem samanstendur af tveimur risastjörnum af F5 gerð sem snúast hvor um aðra á tæpum 27 árum. Stærri og bjartari stjarnan er 75% massameiri en sólin og 24 sinnum bjartari. Minni og daufari stjarnan er 47% massameiri en sólin og 8 sinnum bjartari. Báðar er rúmlega 6.000°C heitar. Beta Delphini er í 101 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • α Delphini er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höfrungnum (birtustig 3,77). Hún er tvístirni en stærri og bjartari stjarnan er af B9-gerð, næstum 11.000°C heit og 195 sinnum bjartari en sólin okkar. Minni og daufari stjarnan er af A-gerð um 175 sinnum bjartari en sólin . Tvíeykið snýst um sameiginlega massamiðju á 17 árum en bilið á milli þeirra er álíka mikið og milli sólar og Satúrnusar. Alfa Delphini er í um 240 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ε Delphini er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höfrungnum (birtustig 4,03). Hún er bláhvít risastjarna af gerðinni B6 í um það bil 358 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan ber einnig nafnið Deneb Dulfim sem þýðir „sporð höfrungsins“.

 • γ Delphini er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höfrungnum (birtustig 4,27). Hún er tvístirni sem samanstendur af gulhvítri meginraðarstjörnu af gerðinni F7 og appelsínugulri undirmálsstjörnu af gerðinni K1, sem er stærri og bjartari, líklega 26 sinnum bjartari en sólin. Tvíeykið snýst um sameiginlega masasmiðju á 3249 árum. Delta Delphini er í 101 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • δ Delphini er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höfrungnum (birtustig 4,43). Hún er tvístirni í um 200 ljósára fjarlægð frá jörðinni með 41 daga umferðartíma. Báðar stjörnurnar eru líklega af F-gerð, 25 sinnum bjartari en sólin, tvisvar sinnum massameiri og rúmlega þrisvar sinnum breiðari. Önnur þeirra (B) er sveiflustjarna af Delta Scuti gerð sem breytir birtu sinni lítillega á nokkurra klukkustunda fresti.

Djúpfyrirbæri

Í Höfrungnum eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri.

 • NGC 6891 er dauf hringþoka (birtustig 10,5).

 • NGC 6905 er hringþoka sem stundum er kölluð Blái blossinn enda sýnist hún blá í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka (birtustig 12). Blái blossinn er í um 4.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • NGC 6934 er kúluþyrping í um 50.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 8,8). Þyrpinguna er að finna suður af sporði Höfrungsins en nota þarf meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka og mikla stækkun til að greina sundur stjörnur í henni (birtustig 10,6).

 • NGC 7006 er kúluþyrping í um 185.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er dauf svo nota þarf meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka til að koma auga á hana.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Höfrungurinn
Stjörnumerkið Höfrungurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Höfrungnum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Delphinus the dolphin

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Delphinus

 3. Small Wonders: Delphinus and Equuleus