Hornmátið

 • stjörnukort, stjörnumerki, Hornmátið
  Kort af stjörnumerkinu Hornmátinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Norma
Bjartasta stjarna: γ2 Normae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
13
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
HD 145417
(44,83 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Gamma Normítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Hornmátið er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52. Í merkinu eru daufar stjörnur milli Altarins og Úlfsins sem Ptólmæos hafði ekki skrásett.

Á korti sínu frá árinu 1756 kallar Lacaille merkið l'Equerre et la Regle og sýndi það sem hornmát eða vinkil og reglustiku. Í seinni útgáfu kortsins, sem kom út árið 1763, hafði hann stytt nafnið og nefnt merkið Norma á latínu eða Hornmátið.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Björtustu stjörnur Hornmátsins eru af fjórða birtustigi og bera engar þeirra formleg nöfn. Frá tíma Lacailles hafa mörk merkisins breyst svo að í Hornmátinnu eru engar stjörnur merktar alfa eða beta. Þær stjörnur sem Lacaille nefndi Alfa og Beta Normae eru nú hluti af Sporðdrekanum og þekktar sem N og H Scopii.

 • γ2 Normae er bjartasta stjarna stjörnumerkisins Hornmátsins (birtustig 4,02). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 128 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er um þúsund gráðum kaldari en sólin en 45 sinnum bjartari, tíu sinnum breiðari og rúmlega tvisvar sinnum massameiri.

 • γ1 Normae er bjartasta stjarna stjörnumerkisins Hornmátsins (birtustig 4,02). Hún er reginrisi af gerðinni F9 í um 1.440 ljósára fjarlægð frá jörðinni

 • Mu Normae er er stjarna af fimmta birtustigi (+4,94) í stjörnumerkinu Hornmátinu. Þótt hún sé dauf að sjá á himninhvolfinu er hún reginrisi af gerðinni B eða O sem er meðal björtustu stjarna vetrarbrautarinnar. Vegna ryks í vetrarbrautinni og mikillar fjarlægðar (um 4.000 ljósár) virkar hún dauf en er samt meira en 500.000 sinnum skærari en sólin. Yfirborðshitastig hennar er líklega um 30.000°C, sex sinnum hærra en sólar. Þessi stjarna er líklega 40 sinnum massameiri en sólin og 25 sinnum breiðari.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hornmátið
Stjörnumerkið Hornmátið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Hornmátið er við vetrarbrautarslæðuna og inniheldur þess vegna fjölmörg forvitnileg djúpfyrirbæri.

 • NGC 6067 er nokkuð björt lausþyrping (birtustig 5,6) í um 4.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hornmátinu. Hún sést leikandi með handsjónaukum og litlum stjörnusjónaukum.

 • NGC 6087 er bjartasta lausþyrpingin í Hornmátinu (birtustig 5,4). Hún er í um 3.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og inniheldur um 40 stjörnur frá sjötta til ellefta birtustigi.

 • Shapley 1 er hringþoka í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er lítil og dauf (birtustig 12,6) og fannst ekki fyrr en bandaríski stjörnufræðingurinn Harlow Shapley kom auga á hana árið 1936. Þessi forvitnilega hringþoka er eins og kleinuhringur í laginu.

 • Abell 3627 eða Hornmátsþyrpingin (e. Norma Cluster) er vetrarbrautaþyrping í um 200 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mjög erfitt er að rannsaka hana vegna ryks í vetrarbrautinni okkar sem byrgir okkur sýn.

Loftsteinadrífur

Gamma Normítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést árlega snemma í mars og er í hámrki í kringum 13. þess mánaðar. Drífan uppgötvaðist í mars árið 1929 og draga þeir nafn sitt af geislapunktinum í stjörnumerkinu Hornmátinu.

Stjörnukort

Stjörnukort af Hornmátinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Norma the set square

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Norma_(constellation)

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/gamma2nor.html

 4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/munor.html

 5. Smoke Signals in Space