Kamelljónið

  • stjörnukort, stjörnumerki, Kamelljónið
    Kort af stjörnumerkinu Kamelljóninu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Chamaeleon
Bjartasta stjarna: α Chamaeleontis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
16
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
α Chamaeleontis
(64 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Kamelljónið var eitt þeirra stjörnumerkja sem hollenski kortagerðarmaðurinn Petrus Plancius bjó til eftir athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman í lok 16. aldar. Keyser og de Houtman höfðu siglt til Austur Indía í einum af fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað og gert stjörnuathuganir.

Kamelljónið birtist fyrst á hnattlíkani sem Plancius og landi hans Jodocus Hondius gáfu út í Amsterdam árið 1598. Merkið er nefnt eftir skriðdýrinu kamelljóni sem algengt er á Madagaskar þar sem hollenski flotinn stoppaði og tók birgðir á leið sinni til Austur Indía. Líklega sáu skipverjarnir fjölmörg kamelljón á eyjunni.

Kamelljónið er skammt frá suðurpóli himins, við hlið stjörnumerkisins Flugunnar. Á himninum er kamelljónið með tunguna útrétta og reynir að ná í fluguna.

Engar goðsögur tengjast merkinu.

Stjörnur

Kamelljónið er mjög dauft stjörnumerki en bjartasta stjarnan er af fjórða birtustigi.

  • α Chamaeleontis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Kamelljóninu (birtustig 4,07). Hún er líklega risastjarna af gerðinni F5 í um 64 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan skín sjö sinnum skærar en sólin okkar og er yfirborðshitastigið í kringum 6.500°C. Hun er rúmlega tvöfalt breiðari en sennilega ekki nema 50% massameiri.

  • β Chamaeleontis er þriðja bjartasta stjarna Kamelljónsins (birtustig 4,24). Hún er stjarna af gerðinni B5Vn, um fimm sinnum massameiri og næstum þrefalt breiðari en sólin okkar. Hún er mjög heit eða rúmlega 14.000°C. Beta Chamaeleontis er í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Chamaeleontis er næst bjartasta stjarna Kamelljónsins (birtustig 4,11). Hún er rauður risi í um 413 ljósára fjarlægð frá jörðinni, álíka massamikil og sólin okkar.

  • T Chamaeleontis eða T Cha er dauf stjarna sem líkist sólinni en er á fyrstu stigum ævi sinnar. Hún er í um 330 ljósára fjarlægð frá jörðinni og aðeins um sjö milljóna ára gömul. Í febrúar árið 2011 var tilkynnt að stjörnufræðingum hefði tekist að rannsaka skammlífa efnisskífu sem umlykur stjörnuna og er á fyrstu stigum þess ferlis að mynda sólkerfi. Hugsanlegt er að í fyrsta sinn hafi mönnum tekist að greina lítinn fylgihnött sem gæti átt sök á stórri geil í skífunni (sjá eso1106).

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Kamelljónið
Stjörnumerkið Kamelljónið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Kamelljóninu eru sárafá athygliverð djúpfyrirbæri en liggur merkið langt frá vetrarbrautarslæðunni. Í Kamelljóninu eru nokkur dökk sameindaský í milli 400 og 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í þessum skýjum eru stjörnur að verða til.

  • Eta Chamaeleontis þyrpingin er lausþyrping í um 316 ljósára fjarlægð sem fannst árið 1999. Í henni er um tylft ungra stjarna sem fannst fyrir tilverknað röntgengeislunar frá ungviðinu.

  • NGC 3195 er hringþoka í um 5.500 ljósára fjarlægð. Hún er með syðstu hringþokum á himninum.

Stjörnukort

Stjörnukort af Kamelljóninu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Chamaeleon the chameleon

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Chamaeleon_(constellation)

  3. Reikistjarna í mótun? — Stjörnufræðingar gætu hafa fundið fyrirbæri sem er að hreinsa slóð sína í rykskýi sem umlykur unga stjörnu