Klukkan

  • stjörnukort, stjörnumerki, Klukkan
    Kort af stjörnumerkinu Klukkunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Horologium
Bjartasta stjarna: α Horologii
Bayer / Flamsteed stjörnur:
10
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
GJ 1061
(12 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei
Í hágöngu:
Á ekki við

Uppruni

Klukkan er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir að hafa dvalið við stjörnuathuganir á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku árin 1751-52. Lacaille nefndi merkið upphaflega Horologium Oscillitorium til heiðurs uppfinningamanninum Christiaan Huygens. Nafn merkisins var síðar stytt.

Merkið táknar pendúlsklukkuna sem Lacaille notaði til að tímasetja stjörnuathuganir sínar.

Stjörnur

Allar stjörnur Klukkunnar eru fremur daufar og bera engin formleg nöfn.

  • α Horologii er bjartasta stjarna Klukkunnar (birtustig +3,8). Hún er í 117 ljósára fjarlægð og er 47 sinnum bjartari, 11 sinnum breiðari og tvisvar sinnum massameiri en sólin okkar. Alfa Horologii er í litrófsflokki A.

  • R Horologi (einnig þekkt sem HD 18242) er rauð risastjarna í um 100 ljósára fjarlægð. Hún er breytistjarna af Mírugerð með 407,6 daga lotu en þá sveiflar hún birtu sinni milli +4,7 til +14,3.

Djúpfyrirbæri

Fremur fá djúpfyrirbæri er að finna í stjörnumerkinu Klukkunni. Nefna má bjálkaþyrilvetrarbrautina NGC 1512 sem er í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Í Klukkunni er að finna ofurþyrpingu vetrarbrauta sem kennd er við Klukkuna og Netið. Þessi ofurþyrping er í um 950 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni og samanstendur af um 30.000 vetrarbrautum og 300.000 dvergvetrarbrautum í um 5.000 vetrarbrautahópum. Allar vetrarbrautirnar eru mjög daufar.

Stjörnukort

Stjörnukort af Klukkunni í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Horologium the Pendulum Clock

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Horologium

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphahor.html