Lagarormurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Lagarormurinn
    Kort af stjörnumerkinu Lagarorminum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Hydrus
Bjartasta stjarna: β Hydri
Bayer / Flamsteed stjörnur:
19
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
β Hydri
(25 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Lagarormurinn var eitt þeirra stjörnumerkja sem hollenski kortagerðarmaðurinn Petrus Plancius bjó til eftir athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman í lok 16. aldar. Keyser og de Houtman höfðu siglt til Austur Indía í einum af fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað og gert stjörnuathuganir.

Lagaromurinn birtist fyrst á hnattlíkani sem Plancius og landi hans Jodocus Hondius gáfu út í Amsterdam árið 1598. Merkið táknar vatnasnáka sem urðu á vegi hollensku landkönnuðanna. Lagarormurinn (hydrus) er karlkynssnákur en hliðstæða hans á himninum, Vatnaskrímslið, sem er miklu stærra stjörnumerki, er kvenkynssnákur.

Engar goðsögur tengjast Lagarorminum.

Stjörnur

Björtustu stjörnur Lagarormsins eru af þriðja birtustigi og bera engin formleg nöfn.

  • α Hydri er næst bjartasta stjarna Lagarormsins (birtustig 2,9). Hún er í höfði Lagarormsins og er í 72 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Hydri er undirmálsstjarna af gerðinni F0 IV, 80% breiðari en sólin og tvisvar sinnum massameiri. Hún er 32 sinnum bjartari en sólin okkar og er um 7.000°C heit.

  • β Hydri er bjartasta stjarna Lagarormsins (birtustig 2,8). Hún er í aðeins 25 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Hydri er undirmálsstjarna af gerðinni G2 IV, 8% massameiri en sólin, næstum tvisvar sinnum breiðari og þrisvar sinnum bjartari. Hún líkist sólinni þess vegna mjög og er raunar aðeins þróaðari svo að vetnisforði hennar er að verða uppurinn.

  • HD 10180 er dauf stjarna í Lagarorminum sem þó líkist sólinni okkar mjög. Í ágúst árið 2010 tilkynntu evrópskir stjörnufræðingar að fundist hefðu að minnsta kosti fimm, allt að sjö, reikistjörnur á braut um stjörnuna. Sjá eso1035.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Lagarormurinn
Stjörnumerkið Lagarormurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Lagarorminum eru fá markverð djúpfyrirbæri. Nefna má NGC 1511 sem er þyrilvetrarbraut, NGC 1473 sem er lítil sporvöluvetrarbraut og NGC 1466 sem er kúluþyrping. Við mörk merkisins er Litla Magellansskýið.

Stjörnukort

Stjörnukort af Lagarorminum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Hydrus the lesser water snake

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Hydrus