Meitillinn
Latneskt heiti: |
Caelum |
Bjartasta stjarna: | α Caeli |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
8 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
0 |
Nálægasta stjarna: |
RR Cae (26,3 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Meitillinn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku, þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52. Merkið birtist fyrst á korti Lacailles af suðurhimninum sem kom út árið 1756. Þá kallaði hann það les Burins en í annarri útgáfu kortsins sem kom út árið 1763 hafði nafinu verið breytt í Caelum Scalptorium, Meitil leturgrafarans. Síðar var það stytt í Caelum eða Meitilinn.
Engar goðsagnir tengjast merkinu.
Stjörnur
Allar stjörnur Meitilsins eru daufar (birtustig 4 eða daufari). Birtustig björtustu stjörnunnar, Alfa Caeli, er +4,45.
-
α Caeli er tvístirni í um 66 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri og bjartari stjarna kerfisins er í litrófsflokki F (F2V) og er 1,48 sinnum massameiri en sólin okkar og 1,3 sinnum breiðari. Hún er rúmlega þúsund gráðum heitari en sólin okkar. Smærri og daufari stjarnan er rauður dvergur (M0.5V), aðeins 30% af massa sólar og töluvert kaldari (um 3.500°C).
-
β Caeli er í um 90 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig +5,04). Hún er í litrófsflokki F (F2V) og er rúmlega sex sinnum bjartari en sólin okkar. Hún er þriðja bjartasta stjarna Meitilsins.
- γ Caeli er notað yfir tvö tvístirnakerfi, Gamma-1 Caeli og Gamma-2 Caeli. Gamma-1 Caeli er kerfi appelsínuguls risa af K-gerð og daufari förunautar af áttunda birtustigi í 185 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Gamma-2 Caeli er líka tvístirni í um 334 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kerfið samanstendur af gulhvítum risa af F-gerð og daufari förunauti sem er líka af F-gerð. Aðeins 0,22 gráður skilja á milli beggja tvístirnakerfa á himninum.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Meitillinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Í Meitlinum eru nokkrar daufar vetrarbrautir úr NGC skránni, þar á meðal:
-
NGC 1679 er þyrilvetrarbraut um tvær gráður suður af Zeta Caeli.
-
NGC 1571 og IC 2106 eru tvær aðrar vetrarbrautir í merkinu.
Stjörnukort
Stjörnukort af Meitlinum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.