Nautið

 • stjörnukort, stjörnumerki, Nautið
  Kort af stjörnumerkinu Nautinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Taurus
Bjartasta stjarna: Aldebaran
Bayer / Flamsteed stjörnur:
132
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
Gliese 176
(31 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Loftsteinadrífur:
Tárítar
Beta Tárítar
Sést frá Íslandi:

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Nautið og telst það því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Nautsins frá 13. maí til 21. júní (en ekki frá 21. apríl til 21. maí eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara sömuleiðis aldrei langt frá sólbaugnum á næturhimninum og sjást því stundum í Nautinu. Til dæmis kemur fyrir að tunglið gangi fyrir stjörnur og djúpfyrirbæri í merkinu.

Uppruni

Nautið er eitt elsta stjörnumerki næturhiminsins. Varðveist hafa hellamálverk frá Krít sem sýna naut á himninum en það var einnig dýrkað sem tákn frjósemi og vorsins í Mið-Austurlöndum.

Tvær grískar goðsögur eru tengdar Nautinu. Venjulega er sagt að merkið tákni Seif í dulargervi, þegar hann rændi prinsessu frá Fönikíu, Evrópu að nafni.

Seifur hafði heillast af fegurð Evrópu. Hann sagði Hermesi syni sínum að reka nautgripi Fönikíukonungs að strönd þar sem Evrópa var að leik ásamt nokkrum öðrum stúlkum. Til að vekja ekki ugg brá Seifur sér í nautslíki og blandaði geði við hjörðina á meðan hann beif tækifæris til að hrífa Evrópu á brott.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Nautið
Stjörnumerkið Nautið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Ekki lék vafi á hver væri glæsilegastur tarfanna. Seifstarfurinn bar skjannahvíta húð og horn sem glitruðu eins og nýfægður málmur.

Evrópa heillaðist af þessari fögru og spöku skeppnu. Hún skreytti horn tarfsins með blómum, strauk síðu hans og dáðist að dýrinu. Tarfurinn lagðist i sandinn sem Evrópa gerði líka. Seifur gat varla haldið aftur af sér þegar Evrópa fór á bak hans. Hann reisti sig við, hljóp út í brimið og tók að synda á haf út með Evrópu skelfingu lostna á bakinu. Hún áttaði sig þó á að ekki var um neitt venjulegt naut að ræða.

Að lokum kom tarfurinn að landi á Krít. Þar sýndi Seifur sitt rétta andlit, dró Evrópu á tálar og færði henni gjafir, þar á meðal fótfráan hund sem síðar varð stjörnumerkið Stórihundur. Saman eignuðust þau soninn Mínos sem varð konungur á Krít og kom upp höllinni Knossos þar sem fram fóru nautaöt.

Önnur saga segir að Nautið sé dísin Íó sem Seifur átti vingott við í óþökk konu sinnar Heru. Til að fela Íó fyrir Heru, dulbjó hann hana sem kvígu. Hera grunaði að ekki væri allt með feldu og bað Argus, varðmanninn með hundrað augu, að gæta kvígunnar.

Á himninum er aðeins framhluti Nautsins sýndur.

Stjörnur

Nautið, stjörnumerki, Sjöstirnið, Aldebaran
Stjörnumerkið Nautið. Appelsínugula stjarnan við miðja mynd er Aldebaran, bjartasta stjarna merkisins, í auga tarfsins. Aldebaran er fyrir framan lausþyrpinguna Regnstirnið, þyrpinguna sem er V laga samstirnið. Fyrir ofan nautið er lausþyrpingin Sjöstirnið. Mynd: Akira Fujii

Nautið er bjart og áberandi stjörnumerki. Í miðju þess er samstirni sem myndar bókstafinn V á hlið og er þar að finna björtustu stjörnu merkisins.

 • Alfa Tauri eða Aldebaran eða Tarfsaugað er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 0,87). Aldebaran er rauður risi af gerðinni K5 í um 65 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum tvisvar sinnum massameiri en sólin, 44 sinnum breiðari og 518 sinnum bjartari. Nafnið Aldebaran er arabískt og merkir „fylgjandi“.

 • Beta Tauri eða Elnath er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 1,68). Hún er blá risastjarna af gerðinni B7 í um 130 ljósára fjarlægð. Stjarnan er fimm sinnum massameiri en sólin, fjórum sinnum breiðari og 700 sinnum bjartari. Hún er á mörkum Nautsins og Ökumannsins. Nafn hennar vísar til oddsins í horni nautsins.

 • Eta Tauri eða Alkýóne er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 2,87). Hún er í 370 ljósára fjarlægð frá jörðinni og tilheyrir lausþyrpingunni Sjöstirninu. Alkýóne er blá risastjarna af gerðinni B7. Hún er sex sinnum massameiri en sólin, átta sinnum breiðari og 2.400 sinnum bjartari. Stjarnan er nefnd eftir einni af dætrum Atlasar og Pleiónu.

 • Zeta Tauri er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,01). Hún er litrófstvístirni í um 440 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari og stærri stjarnan risastjarna af gerðinni B2 sem er ellefu sinnum massameiri en sólin og fimm sinnum breiðari. Förunauturinn er meginraðarstjarna af gerðinni G4, sambærileg sólinni að stærð, massa og birtu. Bilið á milli stjarnanna er 1,17 stjarnfræðieiningar eða 17% meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar. Umferðartími þeirra um sameiginlega massamiðju er næstum 133 dagar. Á himninum er Zeta Tauri í neðra horni Nautsins. Rétt fyrir ofan hana er sprengistjörnuleifin Messier 1.

 • Þeta Tauri er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,84). Hún er (líklega) tvístirni í um 154 ljósára fjarlægð frá jörðinni og tilheyrir lausþyrpingunni Regnstirninu. Stærri en daufari stjarnan er appelsínugulur risi af gerðinni K0 en förunauturinn er minni en bjartari risi af gerðinni A7.

 • Lambda Tauri er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,47). Hún er þrístirni í um 480 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Innra parið í kerfinu, Lambda Tauri AB, er mjög þétt saman en umferðartíminn er rétt tæplega fjórir dagar. Það samanstndur af meginraðarstjörnu af gerðinni B3 sem er sjö sinnum massameiri en sólin, rúmlega sex sinnum breiðari og yfir 5000 sinnum bjartari. Hin stjarnan er undirmálsstjarna af gerðinni A4 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Hún er tvisvar sinnum massameiri en sólin, rúmlega fimm sinnum breiðari og 128 sinnum bjartari. Þriðja stjarnan er helmingi massaminni en sólin.

 • Epsilon Tauri er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,53). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 147 ljósára fjarlægð frá jörðinni og tilheyrir lausþyrpingunni Regnstirninu. Stjarnan er tæplega þrisvar sinnum massameiri en sólin, rúmlega tólf sinnum breiðari og 97 sinnum bjartari. Árið 2007 fannst reikistjarna, rúmlega sjö sinnum massameiri en Júpíter, á braut um stjörnuna. Epsilon Tauri ber einnig nafnið Ain sem þýðir „auga“.

 • Ómíkron Tauri er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,61). Hún er gulur risi af gerðinni G8, 155 sinnum bjartari en sólin, í um 212 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • Gamma Tauri er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,65). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 154 ljósára fjarlægð frá jörðinni í lausþyrpingunni Regnstirninu. Gamma Tauri er næstum tæplega þrisvar sinnum massameiri en sólin, rúmlega þrettán sinnum breiðari og 85 sinnum bjartari.

 • Þrjár stjörnur í stjörnumerkinu nautinu deila nafninu Delta Tauri og tilheyra allar lausþyrpingunni Regnstirninu. Delta1 Tauri er þrístirni í um 153 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Delta2 Tauri er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A7 í um 147 ljósára fjarlægð. Delta3 Tauri er þrístirni í um 148 ljósára fjarlægð.

 • T Tauri eða T Tarfsstjarnan er sveiflustjarna í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 10). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni G5 í um 480 ljósára fjarlægð frá jörðinni. T Tarfsstjarnan er, eins og allar stjörnur sömu gerðar, mjög ung, innan við milljón ára gömul.

Djúpfyrirbæri

Í Nautinu eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri, þar á meðal tvö Messierfyrirbæri.

 • Regnstirnið (lat. Hyades), einnig nefnt Melotte 25, er lausþyrping í um 150 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin er meðal nálægustu stjörnuþyrpinga við sólkerfið okkar. Hún er það víð á himninum að best er að skoða hana með berum augum eða í handsjónauka. Þótt stjarnan Aldebaran sé í sömu sjónlínu og Regnstirnið er hún ekki hluti af þyrpingunni heldur miklu nær okkur. Regnstirnið er um 75 ljósár á breidd en kjarni þyrpingarinnar er um 10 ljósár í þvermál. Talið er að stjörnur Regnstirnisins séu um 600 milljón ára gamlar og hafa stjörnufræðingar leitt líkum að því að þyrpingin hafi myndast úr sama skýi og Messier 44 (Býflugnabúið) í Krabbanum.

  Þyrpingin hefur þekkst frá aldaöðli og minnist gríska skáldið Hómer á Regnstirnið í kvæði frá um 750 f.Kr. Regnstirnið táknar fimm dætur Atlasar í grískri goðafræði. Eftir að Hýas bróðir þeirra lést voru systur hans settar upp á himnafestinguna. Nafngiftin Regnstirnið er þannig tengd táraflóði systranna fimm.

 • Messier 1 eða Krabbaþokan er sprengistjörnuleif í um 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er leifar stjörnu sem sást springa árið 1054 og er ein þekktasta og bjartasta þoka sinnar tegundar. Hún sést með naumindum með handsjónaukum við góðar aðstæður en í litlum stjörnusjónaukum birtist hún sem daufur, gráleitur sporöskjulaga þokublettur.

 • Messier 45 eða Sjöstirnið er þyrping ungra, blárra og heitra stjarna í um 440 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin sést með berum augum á heiðskírri nóttu og er sérstaklega falleg að sjá í gegnum handsjónauka. Ef ætlunin er að skoða Sjöstirnið í stjörnusjónauka er best að nota litla stækkun og eins vítt sjónsvið og unnt er.

 • NGC 1514 er hringþoka (birtustig 9,43) í um 600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er stundnum kölluð Kristalskúluþokan.

 • NGC 1647 er lausþyrping 200 stjarna og sjást um 40 þeirra í sjónauka (birtustig 6,4)

Loftsteinadrífur

Tárítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 17. september til 2. desember. Drífan er í hámarki 4.-7. nóvember og sjást þá jafnan 5-10 loftsteinar á klukkustund. Hún á rætur að rekja til halastjörnunnar Encke en talið er að hún og tárítarnir séu brot úr stórri halastjörnu sem kvarnast hefur úr á síðustu 20 til 30 þúsund árum. Loftsteinaslóðinn er stór og er jörðin nokkrar vikur að ferðast þvert í gegnum hann.

Beta Tárítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir að degi til frá 5. júní til 18. júlí. Drífan er í hámarki 29. júní og greinast þá 25 loftsteinar á klukkustund með ratsjármælingum.

Stjörnukort

Stjörnukort af Nautinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Taurus the bull

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Taurus_(constellation)

 3. Jim Kaler's Stars

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/taurids.html

 5. http://meteorshowersonline.com/showers/beta_taurids.html