Netið

  • stjörnukort, stjörnumerki, Netið
    Kort af stjörnumerkinu Netinu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Reticulum
Bjartasta stjarna: α Reticuli
Bayer / Flamsteed stjörnur:
11
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
ζ2 Reticuli
(39,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Netið er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku, þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52.

Lacaille nefndi merkið upphaflega le Réticule Rhomboide en síðar breytti hann því í Reticulum eða Netið. Merkið nefndi hann eftir netinu í augngleri sjónauka síns sem hann notaði til að mæla staðsetningu stjarnanna á himninum. Netið myndaði tígulmynstur og var úr silkiþráðum sem sett var í augnglerið.

Netið leysti af hólmi annað merki sem þýski stjörnufræðingurinn Issac Habrecht II bjó til árið 1621 og kallað var Rhombus eða Tígullinn.

Stjörnur

Allar stjörnur Netsins eru daufar og aðeins tvær bjartari en birtustig +5.

  • α Reticuli er bjartasta stjarna Netsins (birtustig +3,3). Hún er í 162 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er um þrisvar sinnum massameiri en sólin og þrettán sinnum breiðari. Hún er risi af G8-gerð svo hitastig hennar er örlítið lægra en sólar (um 5.000°C).

  • ε Reticuli (HD 27442) er tvístirni í um það bil 59 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig +4,4). Bjartari stjarna kerfisins er rauður risi af K2-gerð sem er að þenjast út en daufari stjarnan er hvítur dvergur í um 240 ljósára fjarlægð frá risanum. Í árslok 2000 tilkynntu stjörnufræðingar að fundist hefði reikistjarna, Epsilon Reticuli b, í kerfinu. Reikistjarnan er á stærð við Júpíter en í svipaðri fjarlægð frá móðurstjörnunni og jörðin er frá sólinni.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Netið
Stjörnumerkið Netið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Netinu eru fáein áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 1313 er óregluleg bjálkaþyrilvetrarbraut í um 15 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er hrinuvetrarbraut, um 50.000 ljósár í þvermál.

  • NGC 1559 er þyrilvetrarbraut af Seyfert gerð í um 46 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún hefur stóra og þykka þyrilarma og mikil stjörnumyndunarsvæði. Árið 2005 sprakk stjarna í henni (SN 2005df).

Stjörnukort

Stjörnukort af Netinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Reticulum the net

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Reticulum