Norðurkórónan

  • stjörnukort, stjörnumerki, Norðurkórónan
    Kort af stjörnumerkinu Norðurkórónunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Corona Borealis
Bjartasta stjarna: α Cornae Borealis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
24
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
HD 144579
(47 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Stjörnumerkið Norðurkórónan er hálfhringur úr stjörnum milli Hjarðmannsins og Herkúlesar. Merkið táknar gullkórónuna sem Aríadna prinsessa frá Krít bar þegar hún giftist Díonýsosi, guði víns, ölvunar, frjósemis og innblásturs. Sagt var að Hefæstos, guð eldsins, hafi búið kórónuna til og skreytt hana með indverskum gimsteinum.

Að brúðkaupinu loknu kastaði Díonýsos kórónunni til himins þar sem gimsteinar hennar breyttust í stjörnur. Bjartasta stjarna merkisins er stundum kölluð Gemma á latínu sem þýðir gimsteinn en hún er líka þekkt sem Alphecca á arabísku.

Stjörnur

  • α Coronae Borealis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 2,2). Hún er tvístirni í um 75 ljósára fjarlægð frá sólinni. Bjartari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni A0, rúmlega tvisvar sinnum massameiri og þrisvar sinnum breiðari en sólin okkar og 74 sinnum bjartari. Förunauturinn er öllu minni meginraðarstjarna af gerðinni G5 sem er um það bil 90% af bæði massa og þvermáli sólar en 81% af birtu hennar. A0-stjarnan er um 9.500°C heit en G5-stjarnan um 5.600°C.

    Alfa Coronae Borealis er myrkvatvístirni, svipað Algol í Perseifi. Stjörnurnar snúast umhverfis sameiginlega massamiðju á rúmlega 17 dögum. Á því tímabili ganga þær fyrir hvor aðra og myrkvast svo birtustigið sveiflast frá 2,21 til 2,32.

    Alfa Coronae Borealis er einnig þekkt undir arabíska nafninu Alphecca sem er stytting á nayyir al-fakka sem þýðir „bjarta (stjarnan) í opna (stjörnuhringnum)“. Hliðstæða hennar á suðurhveli, Alphecca Meridiana, er bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni.

  • β Coronae Borealis eða Nusakan er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 3,7). Hún er litrófstvístirni í um 114 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bilið milli stjarnanna tveggja er álíka mikið og fjarlægðin milli Satúrnusar og sólar en umferðartíminn er rúmleg 10 ár. Bjartari stjarnan er fjórum sinnum bjartari en förunauturinn og 26 sinnum bjartari en sólin. Hún er líklega meginraðarstjarna af gerðinni F0, rúmlega tvisvar sinnum massameiri og breiðari en sólin okkar.

  • γ Coronae Borealis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 3,8). Hún er tvístirni í um 145 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er undirmálsstjarna af gerðinni B9 en sú daufari er meginraðarstjarna af A3-gerð. Stjörnurnar eru nokkuð þétt saman og oft erfitt að greina sundur í sjónauka. Umferðartími þeirra er næstum 93 ár og bilið milli þeirra að meðaltali 33 stjarnfræðieiningar eða sem samsvarar nokkurn veginn fjarlægðinni milli Neptúnusar og sólar.

  • θ Coronae Borealis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 4,14). Hún er mjög heit meginraðarstjarna af gerðinni B6 í um 311 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ε Coronae Borealis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 4,14). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 í um 230 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • δ Coronae Borealis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Norðurkórónunni (birtustig 4,14). Hún er risastjarna af gerðinni G5 í um 165 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Norðurkórónunni eru engin björt djúpfyrirbæri, hvorki úr NGC-skránni né IC-skránni. Björtustu vetrarbrautirnar í merkinu eru af birtustigi 16,5 úr lítt þekktri MGC skrá. Eina markverða djúpfyrirbærið merkinu er vetrarbrautaþyrpingin Abell 2065, sem er í um 1,5 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þessi vetrarbrautaþyrping er svo dauf að nota stærstu áhugamannasjónauka (yfir 20 tommur) til að greina nokkrar vetrarbrautir í henni.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Norðurkórónan
Stjörnumerkið Norðurkórónan og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Norðurkórónunni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Corona Borealis the northern crown

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Corona_Borealis_(constellation)