Páfuglinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Páfuglinn
  Kort af stjörnumerkinu Páfuglinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Pavo
Bjartasta stjarna: α Pavonis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
24
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Nálægasta stjarna:
SCR 1845-6357
(12,6 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Stjörnumerkið Páfuglinn á rætur að rekja til loka 16. aldar. Þá bjó hollenski kortagerðamaðurinn Petrus Plancius til merkið út frá þeim stjörnum sem landar hans, sæfarendurnir Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman, skrásettu í fyrstu leiðangrum Hollendinga til Austur Indía.

Merkið birtist fyrst á hnattlíkandi Planciusar og landa hans Jodocus Hondius í Amsterdam árið 1598. Merkið er nefnt eftir skrautlega græna páfuglinum sem Keyser og de Houtman sáu á eyjunni Jövu í Indónesíu.

Í grískri goðafræði eru páfuglar tengdir Heru, konu Seifs. Páfuglar drógu til að mynda vagn hennar um himininn en í annarri sögu er sagt frá því hvernig augun á stéli páfugla eru til komin.

Seifur átti í ástarsambandi við Íó og kom Hera næstum upp um þau. Í tilraun til að fela Íó fyrir Heru breytti hann henni í hvíta kýr. Hera grunaði að ekki væri allt með felldu og fékk þjón sinn, risann Argus, til að binda kvíguna við ólífutré og gæta hennar. Argus var hinn fullkomni vörður því hann hafði 100 augu og þurfti aðeins að loka tveimur í einnum. Argus gat því haft fjölmörg augu á Íó í einu.

Til að losa Íó úr ánauðinni sendi Seifur son sinn Hermes til jarðar, dulbúinn sem fjárhirði. Hermes varði degi með Argusi, sagði honum sögur og lék fyrir hann tónlist sem urðu til þess að Argus lokaði öllum augunum og sofnaði. Hermes drap Argus og frelsaði Íó. Hera kom þá augun Argusar fyrir á stéli páfuglsins.

Stjörnur

Stjörnur Páfuglsins eru flestar fremur daufar. Bjartasta stjarna merkisins er af öðru birtustigi.

 • α Pavonis eða Páfuglinn er bjartasta stjarna stjörnumerkisins (birtustig +1,94). Stjarnan er af B2-gerð og mjög heit, um 18.000°C. Hún er í 180 ljósára fjarlægð frá jörðinni og skín 2.000 sinnum skærar en sólin. Stjarnan er líklega 6 sinnum massameiri en sólin og 5 til 6 sinnum breiðari. Alfa Pavonis er litrófstvístirni og er umferðartími tvíeykisins 11,75 dagar.

 • γ Pavonis er stjafrna af F9-gerð í um 30 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig +4,22). Stjarnan er 21% massameiri og 15% breiðari en sólin okkar og nokkur hundruð gráðum heitari (um 6.000°C).

 • δ Pavonis er stjarna af G8-gerð í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig +3,56). Stjarnan líkist sólinni okkar mjög: Hún nánast jafn massamikil, örlítið breiðari, helmingi bjartari en svo til jafn heit.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Páfuglinn
Stjörnumerkið Páfuglinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Páfuglinum eru fáein áhugaverð djúpfyrirbæri.

 • NGC 6744 er þyrilvetrarbraut í um 30 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún líkist mjög vetrarbrautinni okkar en er tvisvar sinnum stærri (sjá eso1118).

 • NGC 6752 er kúluþyrping í um 13.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er með nálægustu kúluþyrpingum við jörðina og sést með berum augum við góðar aðstæður.

 • NGC 6782 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 183 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Stjörnukort

Stjörnukort af Páfuglinum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Pavo the peacock

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Pavo_(constellation)

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/peacock.html