Paradísarfuglinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Paradísarfuglinn
    Kort af stjörnumerkinu Paradísarfuglinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Apus
Bjartasta stjarna: α Apodis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
12
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
HD 128400
(66,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Paradísarfuglinn var eitt þeirra stjörnumerkja sem hollenski kortagerðarmaðurinn Petrus Plancius bjó til eftir athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman í lok 16. aldar. Keyser og de Houtman höfðu siglt til Austur Indía í einum af fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað og gert stjörnuathuganir.

Paradísarfuglinn birtist fyrst á hnattlíkani sem Plancius og landi hans Jodocus Hondius gáfu út í Amsterdam árið 1598. Þar nefndi Plancius merkið Paradysvogel Apis Indica sem þýðir bókstaflega „paradísarfuglinn býfluga indversk“. Líklega hefur Plancius eitthvað ruglast á latínunni þar og ætlað að nota orðið avis sem þýðir fugl í stað apis. Á stjörnukorti franska stjörnufræðingsins Nicolas Louis de Lacaille frá árinu 1763 er merkið hins vegar kallað Apus eða Paradísarfuglinn.

Nafnið Apus er dregið af gríska orðinu apous sem þýðir „fótalaus“. Ástæðan fyrir þessari nafngift er sú að vesturlandabúar töldu fuglinn fótalausa, því einu Paradísarfuglarnir sem þeir höfðu séð voru dauðir fuglar þar sem búið var að fjarlægja fætur og vængu.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Allar stjörnur Paradísarfuglsins eru daufar og bera engin formleg nöfn.

  • α Apodis er bjartasta stjarna Paradísarfuglsins (birtustig +3,8). Hún er appelsínugulur risi af K-gerð (K2.5) og því rúmlega þúsund gráðum kaldari en sólin. Stjarnan er allt að 980 sinnum bjartari en sólin og 48 sinnum breiðari. Alfa Apodis er í um 447 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Apodis er þriðja bjartasta stjarna Paradísarfuglsins (birtustig +4,24). Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í 158 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Apodis er risastjarna af K-gerð (K0 III), 11 sinnum breiðari en sólin og nokkur hundruð gráðum kaldari (um 4.800°C).

  • γ Apodis er næst bjartasta stjarna Paradísarfuglsins (birtustig +3,9). Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í aðeins um 20,9 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Gamma Apodis er risastjarna af G9 III gerð sem þýðir að hún er á síðari stigum þróunar sinnar.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Paradísarfuglinn
Stjörnumerkið Paradísarfuglinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Paradísarfuglinum eru fremur fá áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 6101 er kúluþyrping í um 50.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop uppgötvaði þyrpinguna 1. júní árið 1826 þegar hann var við stjörnuathuganir í Ástralíu. Þyrpingin er fremur dauf og nýtur sín best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

Stjörnukort

Stjörnukort af Paradísarfuglinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Apus the bird of paradise

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Apus

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphaaps.html