Sextantinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Sextanturinn
    Kort af stjörnumerkinu Sextantinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Sextans
Bjartasta stjarna: α Sextantis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
28
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
LHS 292
(14,8 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Sextantítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus bjó til stjörnumerkið Sextantinn árið 1687. Hevelíus kallaði merkið upphaflega Sextans Uraniae eftir tækinu sem hann notaði til að mæla stöðuhnit stjarna á himninum. Sextant Hevelíusar eyðilagðist þegar eldur kviknaði í stjörnustöð hans árið 1679.

Þótt sjónaukar væru komnir fram fyrir lögnu hélt Hevelíus áfram að gera athuganir með berum augum með hjálp sextants og annarra mælitækja.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Sextantinn er dauft stjörnumerki. Björtustu stjörnur þess eru af fjórða og birtustigi.

  • α Sextantis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sextantinum (birtustig 4,48). Hún er risastjarna af gerðinni A í um 287 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 122 sinnum bjartari en sólin, þrisvar sinnum massameiri og tæplega fjórum sinnum breiðari. Yfirborðshitastig hennar er um 9.700°C. Alfa Sextantis er líklega um 300 milljóna ára gömul og að ljúka skeiði sínu sem meginraðarstjarna. Eftir nokkra tugi milljóna ára hefst helíumbruni í kjarna hennar og verður hún þá að appelsínugulum risa.

  • γ Sextantis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sextantinum (birtustig 5,07). Hún er þrístirni í um 262 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Sextantis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sextantinum (birtustig 5,0). Hún er bláhvít meginraðarstjarna af gerðinni B í um 345 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Sextantis er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni milli 5,00 til 5,10 á hálfum mánuði.

Djúpfyrirbæri

Í Sextantinum eru nokkrar vetrarbrautir sem tiltölulega auðvelt er að skoða í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka..

  • NGC 2967 er fremur stór og björt þyrilvetrarbraut (birtustig 11,6) í um 80 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 3115 er björt og stór linsulaga vetrarbraut (birtustig 9,1) í um 34 milljóna ljósára fjarlægð. Af vetrarbrautum Sextantsins er lang auðveldast að skoða hana í gegnum áhugamannasjónauka.

  • NGC 3165 og NGC 3169 eru gagnvirkar þyrilvetrarbrautir í um 70 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 13,9).

  • Í Sextantinum er COSMOS svæðið sem mikill fjöldi sjónauka hefur kortlagt í mismunandi bylgjulengdum ljóss, þar á meðal Hubblessjónauki NASA og ESA og VISTA og VLT sjónaukar ESO. Þetta svæði er tífalt stærra en sýndarflatarmáli fulls tungls á himninum og sýnist autt (sjá eso1124 og eso1213).

Loftsteinadrífur

Sextantítar er loftsteinadrífa sem sést milli 24. september til 9. október og er í hámrki 29. september til 4. október. Drífan er veik og líklega lotubundin svo hún sést á fjögurra til fimm ára fresti. Sextantítar verða í dagsbirtu og greinast aðeins með útvarpathugunum.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sextantinn
Stjörnumerkið Sextantinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Sextantinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Sextans the sextant

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Sextans

  3. What's Up Sextans

  4. Jim Kaler's Stars

  5. http://meteorshowersonline.com/showers/sextantids.html