Sjónaukinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Sjónaukinn
    Kort af stjörnumerkinu Sjónaukanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Telescopium
Bjartasta stjarna: α Telescopii
Bayer / Flamsteed stjörnur:
13
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Gliese 754
(19,3 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Sjónaukinn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52. Merkið táknar langan linsusjónauka, svipaðan þeim sem Jean Dominique Cassini í stjörnustöðinni í París notaði.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Sjónaukinn samanstendur af daufum stjörnum sem bera engin formleg nöfn. Alfa Telescopii, bjartasta stjarna merkisins, er af fjórða birtustigi (+3,51).

  • α Telescopii er blá risastjarna af B-gerð í 250 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum 900 sinnum skærari en sólin okkar og mjög heit, um 18.000°C. Ljósaflið og hitastigið segja okkur að stjarnan er sex sinnum massameiri en sólin og að hún sé fremur ung.

  • ζ Telescopii er næst bjartasta stjarna Sjónaukans. Hún er gulur risi í um það bil 127 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sjónaukinn
Stjörnumerkið Sjónaukinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Sjónaukanum eru fá áhugaverð djúpfyrirbæri. Þó má nefna kúluþyrpinguna NGC 6584 sem er í um 44.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop uppgötvaði þyrpinguna þann 5. júní árið 1826 er hann dvaldi í Ástralíu.

Stjörnukort

Stjörnukort af Sjónaukanum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Telescopium the Telescope

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Telescopium

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphatel.html