Smásjáin

  • stjörnukort, stjörnumerki, Smásjáin
    Kort af stjörnumerkinu Smásjánni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Microscopium
Bjartasta stjarna: γ Microscopii
Bayer / Flamsteed stjörnur:
13
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Lacaille 8760
(12,8 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Smásjáin er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52. Merkið táknar vitaskuld vísindatækið smásjána eins og það leit út skömmu eftir að hún var fundin upp.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Smásjáin er sunnan við stjörnumerkið Steingeitina, á svæði sem aðeins geymir stjörnur af fimmta birtustigi. Mesta furða er að nokkur hafi ímyndað sér sérstakt stjörnumerki á þessum stað.

  • α Microscopii er þriðja bjartasta stjarna Smásjárinnar (birtustig +4,90). Hún er í 380 ljósára fjarlægð frá jörðinni og fellur í litrófsflokk G (G7). Stjarnan er meira en 160 sinnum bjartari en sólin en nokkru kaldari eða rétt um 4.800°C. Hún er rúmlega 17 sinnum breiðari en sólin og þrisvar sinnum massameiri.

  • γ Microscopii er bjartasta stjarna Smásjárinnar (birtustig +4,67). Hún er í um 229 ljósára fjarlægð frá jörðinni og fellur í litrófsflokk G (G6). Stjarnan er meira en 60 sinnum bjartari en sólin okkar og álíka heit eða um 5.000°C. Hún er 10 sinnum breiðari en sólin og meira en tvisvar sinnum massameiri. Fyrir um 3,8 milljónum ára var Gamma Microscopii aðeins 6 ljósár frá sólinni okkar. Frá jörðu séð skein hún álíka skært og Venus og var því mun bjartari en Síríus sem er, nú um stundir, bjartasta fastastjarnan á næturhimninum.

  • Lacaille 8760 eða AX Microscopii er rauður dvergur (litrófsflokkur M0) í stjörnumerkinu Smásjánni. Hún er ein nálægasta fastastjarnan við sólina í aðeins 12,9 ljósára fjarlægð. Franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille uppgötvaði stjörnuna milli 1751-52. Stjarnan er aðeins 60% af massa sólarinnar og helmingi minni og bíður þess vegna miklu lengri ævi — ef til vill endist hún í allt að 75 milljarða ára.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Smásjáin
Stjörnumerkið Smásjáin og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Engin markverð djúpfyrirbæri eru í Smásjánni.

Stjörnukort

Stjörnukort af Smásjánni í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Microscopium the Microscope

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Microscopium

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphamic.html

  4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/gammamic.html

  5. http://en.wikipedia.org/wiki/Lacaille_8760