Suðurkórónan

 • stjörnukort, stjörnumerki, Suðurkórónan
  Kort af stjörnumerkinu Suðurkórónunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Coronae Australis
Bjartasta stjarna: α Coronae Australis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
14
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
HD 166348
(42 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Kórónu Ástralítar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Forngrikkir þekktu stjörnumerkið Suðurkórónuna ekki sem kórónu heldur blómakrans — Suðurkransinn — eins og sjá má á gömlum stjörnukortum. Kransinn eða kórónan er við fætur Bogmannsins og hafa ef til vill fallið af höfði hans.

Engar goðsögur tengjast merkinu.

Í stjörnum Suðurkórónunnar sáu kínverskir stjörnufræðingar fyrir sér stóra skjaldböku með þykka skel, Bie, við bakka himnafljótsins, vetrarbrautarslæðunnar.

Stjörnur

Ptólmæos skráði 13 stjörnur í Suðurkórónunni en ein þeirra var síðar færð í stjörnumerkið Sjónaukann sem Alfa Telescopii. Stjörnurnar eru ekki bjartar en merkið er samt sem áður auðþekkjanlegt af því mynstri sem Gamma, Alfa, Beta, Delta, Eta og Zeta mynda. Engin stjarnanna er bjartari en fjórða birtustig.

 • α Coronae Australis er bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,1). Hún er bláhvít stjarna á meginröð af gerðinni A2 í um 130 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fimm sinnum massameiri en sólin, rúmlega tvisvar sinnum breiðari og 117 sinnum bjartari. Stjarnan er sú eina sem ber formlegt nafn, Alfekka Meridiana.

 • β Coronae Australis er næst bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,1). Hún er í um 510 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er bjartur appelsínugulur risi af gerðinni K0.

 • γ Coronae Australis er þriðja bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,2). Hún er tvístirni; tvær gul-hvítar stjörnur í 58 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Báðar eru meginraðarstjörnur af gerðinni F8.

 • δ Coronae Australis er fjórða bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,5). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 175 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • θ Coronae Australis er fimmta bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,6). Hún er gulhvít rísastjarna af gerðinni G5 í um 867 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ζ Coronae Australis er sjötta bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,7).

 • ε Coronae Australis er sjöunda bjartasta stjarnan í Suðurkórónunni (birtustig 4,8). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni F2 í um 98 ljósára fjarlægð sem skín 8 sinnum skærari en sólin, 1,9 sinnum breiðari og 1,6 sinnum massameiri. Epsilon Coronae Australis er myrkvatvístirni. Á 0,6 daga fresti gengur daufari stjarnan fyrir þá bjartari og síðan á bak við hana. Þessar stjörnur eru aðeins 2,9 milljónir km á frá hvor annarri.

Djúpfyrirbæri

Í Suðurkórónunni eru fremur fá markverð djúpfyrirbæri.

 • R Coronae Australis er stjarna umlukin blárri endurskinsþoku innan í stóru rykskýi í um 420 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mismunandi hlutar þokunnar eru nefndir NGC 6726, NGC 6727 og NGC 6729.

Loftsteinadrífur

Kórónu Ástralítar eru minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 14 og 18. mars ár hvert og ná hámarki í kringum 16. mars og sjást þá á milli 5 til 7 loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Suðurkórónan
Stjörnumerkið Suðurkórónan og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Suðurkórónunni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Corona Australis the southern crown

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Corona_Australis

 3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/epscra.html

 4. Vatnslitir R Coronae Australis