Suðurþríhyrningurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Suðurþríhyrningurinn
    Kort af stjörnumerkinu Suðurþríhyrningnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Triangulum Australe
Bjartasta stjarna: α Trianguli Australis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
10
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
ζ Trinaguli Australis
(12,6 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Suðurþríhyrningurinn var eitt þeirra tólf stjörnumerkja sem hollenski kortagerðarmaðurinn Petrus Plancius bjó til eftir athugunum landa sinna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman í lok 16. aldar. Keyser og de Houtman höfðu siglt til Austur Indía í einum af fyrstu leiðangrum Hollendinga þangað og gert stjörnuathuganir.

Suðurþríhyrningurinn birtist fyrst á hnattlíkani sem Plancius og landi hans Jodocus Hondius gáfu út í Amsterdam árið 1598.

Stjörnur

Suðurþríhyrninginn mynda þrjár björtustu stjörnur merkisins, Alfa, Beta og Gamma Trianguli Australis.

  • α Trianguli Australis er bjartasta stjarnan í Suðurþríhyrningum (birtustig 1,91). Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í um 391 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Trianguli Australis er björt, appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 IIb-IIIa sem er sjö sinnum massameiri og 5.500 sinnum bjartari en sólin. Hún er sýnd á brasilíska fánanum sem tákn fyrir ríkið Rio Grande do Sul.

  • β Trianguli Australis er næst bjartasta stjarnan í Suðurþríhyrningum (birtustig 2,85). Hún er í aðeins um 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni og flokkast sem stjarna á meginröð af gerðinni F1. Beta Trianguli Australis er sýnd á brasilíska fánanum sem tákn fyrir ríkið Santa Catarina.

  • γ Trianguli Australis er þriðja bjartasta stjarnan í Suðurþríhyrningnum (birtustig 2,87). Hún er í um 184 ljósára fjarlægð frá jörðinni og flokkast sem stjarna á meginröð af gerðinni A1. Stjarnan er næstum sex sinnum breiðari en sólin og nokkuð heitari eða yfir 9.000°C. Gamma Trianguli Australis er á brasilíska fánanum sem tákn fyrir ríkið Paraná.

Djúpfyrirbæri

Þótt Suðurþríhyrningurinn sé við vetrarbrautarslæðuna geymir merkið fremur fá markverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 5979 er hringþoka í um 9.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni, fremur dauf (birtustig 12,3).

  • NGC 5938 er þyrilvetrarbraut í um 300 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 6025 er lausþyrping um 30 stjarna frá sjöunda til níunda birtustigs sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille uppgötvaði milli 1751-52. Þyrpingin er í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og um 11 ljósár í þvermál.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Suðurþríhyrningurinn
Stjörnumerkið Suðurþríhyrningurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Suðurþríhyrningnum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Triangulum Astrale the southern triangle

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Triangulum_Australe

  3. Jim Kaler's Stars