Túkaninn

Piparfuglinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Piparfuglinn, Túkaninn
    Kort af stjörnumerkinu Piparfuglinum/Túkaninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Tucana (tuc)
Bayer / Flamsteed stjörnur:
17
Stjörnur bjartari +3,00:
1
Bjartasta stjarna:
α Tuc (+2,87)
Messier fyrirbæri:
Ekkert
 Djúpfyrirbæri: Litla Magellanskýið
47 Tucanae
Sést frá Íslandi:
Nei
Stjörnukort:
Prentvænt (pdf)

Túkaninn er eitt þeirra tólf stjörnumerkja sem Hollendingurinn Petrus Plancius bjó til út frá athugunum landa sinna, sæfarendanna Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtmann. Merkið birtist fyrst á hnattlíkani Planciusar árið 1598 og nefndi hann það Túkaninn. Merkið rataði síðan í Uranometria stjörnuatlas Jóhanns Bayers árið 1603.[1]

Stjörnur og djúpfyrirbæri

Túkaninn er fremur óljóst merki enda er sýndarbirtustig björtustu stjörnu merkisins er 3. Merkið er hins vegar prýtt 47 Tucanae — einni glæsilegustu kúluþyrpingu himins sem er svo björt að hún var merkt sem stjarna á stjörnukort áður fyrr — og Litla Magellanskýinu, fylgivetrarbraut okkar. Engar stjörnur í merkinu bera almenn heiti og engar goðsagnir fylgja þeim.[1] Stjarnan ß Tucanae er líklega sexstirni í um 140 ljósára fjarlægð. Tvær þeirra sjást með berum augum.[2]

Dvergvetrarbrautin í Túkananum

Í Túkananum er dvergvetrarbraut sem fannst ekki fyrr en árið 1990. Hún er dvergsporvala sem inniheldur einungis gamlar stjörnur. Allar mynduðust þær nánast samtímis í einni stjörnumyndunarhrinu á svipuðum tíma og kúluþyrpingar Vetrarbrautarinnar urðu til. Ekki eru nein merki um að stjörnumyndun eigi sér stað í henni í dag.[3]

Dvergvetrarbrautin í Túkananum er í um 3 milljóna ljósára (900 kílóparsek) fjarlægð frá okkur og tilheyrir því Grenndarhópnum. Hún er hvorki álitin fylgivetrarbraut okkar né Andrómeduþokunnar, heldur er hún talin hafa verið einangruð stærstan hluta ævi sinnar.[3]

Tengt efni

Tilvísanir

  1. Ian Ridpath's StarTales. Tucana: The toucan. Sótt 28.06.11.

  2. Jim Kaler. Stars: Beta Tuc. Sótt 28.06.11.

  3. Lavery, Russell J.: Mighell, Kenneth J. (janúar 1992). „A new member of the Local Group - The Tucana dwarf galaxy“. The Astronomical Journal 103 (1): 81–84. Bibcode 1992AJ....103...81L.doi:10.1086/116042.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Túkaninn/Piparfuglinn. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/stjornumerkin/tukaninn sótt (DAGSETNING)