Vogin

 • stjörnukort, stjörnumerki, vogin
  Kort af stjörnumerkinu Voginni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Libra
Bjartasta stjarna: β Librae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
46
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
Gliese 570
(19,2 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Maí Líbrítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Vogina og telst hún því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Vogarinnar frá 30. október til 20. nóvember (en ekki frá 23. september til 23. október eins og segir í stjörnuspám). Vogin er eina merki dýrahringsins sem ekki er nefnt eftir lifandi veru.

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Voginni.

Vogin er það sunnarlega á himinhvolfinu að einungis hluti hennar sést frá Íslandi. Efri hlutinn sést best um og upp úr miðnætti í mars og apríl.

Vogin er sumarmerki sem þýðir að hún er hágöngu (hæst á lofti) í suðri klukkan fjögur að nóttu þann 1. apríl. Þá er hins vegar farið að birta af degi og því betra að skoða hana fyrr þegar hún er lægra á lofti.

Auðveldast er að finna Vogina með því að finna fyrst Meyjuna sem rís á undan henni upp á himininn. Til þess að finna stjörnumerkin er gott að draga bogalínu í framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún lendir fyrst á Arktúrusi í Hjarðmanninum og liggur síðan niður að Spíku í Meyjunni. Vogin er þá við sjóndeildarhring vinstra megin við Meyjuna.

Uppruni

Á tímum Forngrikkja var svæðið sem við í dag þekkjum sem Vogina kallað Chelae sem þýðir klær og vísar til klóa Sporðdrekans. Nöfn stjarna Vogarinnar bera þess enn merki.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Vogin
Stjörnumerkið Vogin og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Ekki er vitað hverjir kynntu stjörnumerkið Vogina til sögunnar. Líklega varð merkið til í þeim búningi sem við könnumst við í dag hjá Rómverjum á fyrstu öld e.Kr. Sagt var að tunglið hefði verið í Voginni þegar Róm var stofnuð. Rómverski sagnaritarinn Manilius sagði Vogina stjörnumerkið sem sólin væri í þegar árstíðirnar væru jafnar og dagur og nótt jafnlöng (sólin var i Voginni við haustjafndægur á þessum tíma).

Vogin er þannig stjörnumerki jafnvægis og réttlætis. Hún vísar til vogar Astrælu, gyðju réttlætis en hún var ein margra gyðja sem tengdar hafa verið við stjörnumerkið Meyjuna..

Stjörnur

Voginn er fremur dauft stjörnumerki en tvær störnur eru bjartari en 3. birtustig.

 • β Librae eða Zubeneschamali er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 2,61). Hún blá meginraðarstjarna af gerðinni B6 sem er rúmlega þrisvar sinnum massameiri en sólin, næstum fimm sinnum breiðari, 130 sinnum bjartari og tvisvar sinnum heitari. Beta Librae er í um 185 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn stjörnunnar, Zubeneschamali, merkir „norðurklóin [á Sporðdrekanum]“ en arabar litu á hana sem hluta af Sporðdrekanum. Hún ber líka latneska heitið Lanx Borealis sem þýðir „norðurkvarði [vogarinnar]“.

 • α Librae eða Zubenelgenubi er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 2,75). Hún er sýndartvístirni sem greina má með berum augum. Bjartari stjarnan (birtustig 2,8) er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A3 í um 76 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn stjörnunnar, Zubenelgenubi, merkir „suðurklóin [á Sporðdrekanum]“ en arabar litu á hana sem hluta af Sporðdrekanum. Hún ber líka latneska heitið Lanx Australis sem þýðir „suðurkvarði [vogarinnar]“.

 • σ Librae eða Zubenalgubi er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 3,25). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M3 í um 288 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn stjörnunnar, Zubenalgubi, merkir „suðurklóin [á Sporðdrekanum]“ en arabar litu á hana sem hluta af Sporðdrekanum.

 • υ Librae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 3,60). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 í um 196 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • γ Librae er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 3,91). Hún er rauð risastjarna af gerðinni K0 í um 152 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er einnig kölluð Zubenelakrab sem þýðir „klær Sporðdrekans“ en arabar litu á hana sem hluta af Sporðdrekanum.

 • δ Librae er tólfta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 4,91). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B9,5 í um 300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er einnig myrkvatvístirni sem breytir birtu sinni frá 4,43 upp í 5,81 á 2,3 dögum. Delta Librae gengur líka undir nafninu Zubenelakribi.

 • Gliese 581 eða HO Librae er rauð dvergstjarna á meginröð af gerðinni M3í stjörnumerkinu Voginni (birtustig 10,57). Hún er í 20,3 ljósára fjarlægð frá jörðinni og því meðal nálægustu fastastjarna við sólkerfið okkar. Stjarnan er 31% af massa sólar, 29% af þvermáli hennar en aðeins 1,3% af birtunni. Gliese 581 hefur vakið mikla athygli stjörnufræðinga því fundist hafa að minnsta kosti fjórar, hugsanlega sex, reikistjörnur á braut um hana, þar á meðal ein reikistjarna sem gæti verið lífvænleg.

Djúpfyrirbæri

Vogin er eina stjörnumerki dýrahringsins þar sem ekki er að finna nein fyrirbæri úr Messierskránni. Öll helstu djúpfyrirbæri Vogarinnar eru dauf, aðallega vetrarbrautir.

 • NGC 5897 er kúluþyrping í um 41.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 8,5 svo hún er tiltölulega björt og hentar sjónaukum af öllum stærðum. Hana er að finna um það bil fimm gráður norðaustur af Sigma Librae og átta gráðum suðvestur af Alfa Librae.

 • NGC 5792 er þyrilvetrarbraut í um 83 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur dauf (birtustig 12) og nýtur sín því best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Maí Líbrítar er skammvinn og lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 1. til 9. maí. Drífan er í hámarki í kringum 6. maí og sjást þá á bilinu 2 til 6 loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Voginni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Libra the scales

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Libra_(constellation)

 3. Jim Kaler's Stars

 4. What's Up Libra

 5. http://meteorshowersonline.com/showers/may_librids.html