Gígur á Merkúríusi nefndur eftir Halldóri Laxness

Fjórir gígar á Merkúríusi bera nöfn Íslendinga

Sævar Helgi Bragason 19. jún. 2013 Fréttir

26 km breiður gígur á innstu reikistjörnu sólkerfisins ber nú nafn eina Nóbelsverðlaunahafa Íslendinga

 • Merkúríus, gígar, Nína Tryggvadóttir, Halldór Laxness

Þann 18. júní 2013 samþykkti örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga tillögu vísindamanna sem starfa við MESSENGER leiðangur NASA, að nefna gíg á Merkúríusi Laxness, eftir íslenska rithöfundinum Halldóri Kiljan Laxness. Gígurinn, sem er tæplega 26 km að þvermáli, er skammt frá norðurpól Merkúríusar. Á sama tíma var átta öðrum gígum gefin formleg nöfn.

Gígar á Merkúríusi, innstu reikistjörnu sólkerfisins, eru nefndir eftir heimsþekktum látnum listamönnum, tónlistarmönnum og rithöfundum eða öðrum sem hafa sett mark sitt á menningu og listir mannkynsins. Á Merkúríusi eru gígar til að mynda nefndir eftir Beethoven, Mozart, Hemingway, Tolkien og Picasso, svo fáein dæmi séu tekin.

Vísindamennirnir sem vinna að rannsóknum á Merkúríusi lögðu til við örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga (e. International Astronomical Union, IAU) að gígarnir yrðu nefndir eftir listamönnunum níu sem eru:

 • Sidney Bechet, jazztónlistarmaður frá Bandaríkjunum;

 • Anne Seymour Damer, myndhöggvari frá Englandi;

 • Jacques-Louis David, listmálari frá Frakklandi;

 • Romain de Tirtoff Erté. listamaður og hönnuður frá Rússlandi;

 • Alicia de Larrocha, píanóleikari frá Spáni;

 • Theolonius Monk, jazztónlistarmaður frá Bandaríkjunum;

 • Sen no Rikyu, temeistari frá Japan;

 • Raja Ravi Varma, málari frá Indlandi

 • Halldór Kiljan Laxness, rithöfundur frá Íslandi.

Allir gígarnir bera eftirnöfn þessa fólks.

Gígurinn Laxness er 26 km að þvermáli og rúmlega 4 km djúpur. Í miðju hans er í kringum 3 km hátt fjall. Gígurinn er skammt frá norðurpól Merkúríusar (breidd 83°N, lengd 53°W), ofan á árekstrardældinni Goethe sem er 383 km breið og líklega um 4 milljarða ára gömul.

Halldór Laxness er ekki eini Íslendingurinn sem minnst er á Merkúríusi. Þrír aðrir gígar bera nöfn Íslendinga: Snorri, eftir sagnaritaranum Snorra Sturlusyni; Sveinsdóttir, eftir listakonunni Júlíönu Sveinsdóttur og Tryggvadóttir eftir myndlistarkonunni Nínu Tryggvadóttur. Fleiri staðir í sólkerfinu bera íslensk nöfn eins og lesa má um hér.

MESSENGER geimfarið hefur verið á braut um Merkúríus frá því í mars 2011. Geimfarið er á sporöskjulaga pólbraut og kemst næst reikistjörnunni í 200 km hæð.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Háskóla Íslands og Stjörnufræðivefnum
Sími: 896-1984
E-mail: [email protected]

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1306

Tengdar myndir

 • Merkúríus, Nína Tryggvadóttir, Halldór Laxness, gígarNokkrir gígar við norðurpól Merkúríusar sem bera nöfn ýmissa listamanna, þar á meðal Nínu Tryggvadóttur og Halldórs Laxness (merktur með rauðri sporöskju). Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Carnegie Institution of Washington/USGS/Stjörnufræðivefurinn
 • Halldór Laxness, Auður LaxnessHalldór Laxness og eiginkona hans Auður Laxness á heimili sínu Gljúfrasteini í Mosfellsdal. Mynd: Ragnar Axelsson / Gljúfrasteinn.is
 • Halldór Laxness, gígur, MerkúríusHæðarkort frá MESSENGER af árekstrardældinni Goethe. Gígurinn Laxness er rúmlega 4 km djúpur og um 26 km breiður. Mynd: NASA/Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory/Carnegie Institution of Washington