Náin kynni við Tarantúluna

6. ágúst 2012

  • Tarantúluþokan, Tarantúlan, NGC 2070, Sverðfiskurinn
    Stækkuð mynd af Tarantúluþokunni, NGC 2070, í stóra Magellan skýinu. Tarantúlan er í stjörnumerkinu Sverðfisknum í um 170.000 ljósára fjarlægð. Mynd: ESA/Hubble og NASA.

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa nærmynd af útjöðrum Tarantúluþokunnar með 2,4 metra auga sínu.

Björtu þræðirnir á myndinni eru merki þess að svæðið er ríkt af jónuðu vetnisgasi og stjörnufræðingar kalla röfuð vetnisský. Í raun og veru er þetta svæði rauðleitt en með hjálp ýmissa litsía virðist myndin, sem er bæði tekin í sýnilegu og innrauðu ljósi, grænleit.

Röfuð vetnisský geyma nýmyndaðar stjörnur sem gefa frá sér orkuríkt útfjólublátt ljós sem jónar gasið umhverfis þær. Þessar þokur eru skammlífar þar sem sólvindar stjarnanna feykja burt gasinu og skilja eftir stjörnuþyrpingu á borð við Sjöstirnið í Nautinu.

Tarantúluþokan er í Stóra Magellanskýinu, einni af nágrannavetrarbraut okkar, í 170.000 ljósára fjarlægð frá sólkerfinu. Hún er bjartasta geimþokan í Grenndarhópnum og einnig sú stærsta, um 650 ljósár í þvermál og virkasta stjörnumyndunarsvæði sem við þekkjum í næsta nágrenni okkar í geimnum. Í henni eru fjölmörg gas- og rykský sem og tvær bjartar stjörnuþyrpingar. Nýleg mynd frá Hubble sýnir stærstan hluta þokunnar sem liggur að þessu sjónarhorni.

Stjörnuþyrpingin í miðju Tarantúlunnar er tiltölulega ung og mjög björt. Þótt hún sé fyrir utan sjónsvið myndarinnar er orkan frá henni slík að hún lýsir upp alla þokuna, þar á meðal þá hluta sem hér sjást. Þokan er í raun svo björt að ef hún væri innan 1000 ljósára fjarlægð frá jörðu myndi hún varpa skugga á plánetuna okkar.

Í Tarantúluþokunni varð nálægustu sprengistjarna sem sést hefur eftir að sjónaukinn var fundinn upp, sprengistjarnan SN1987A, sem sást með berum augum árið 1987.

Myndin er búin til með Advanced Camera for Surveys á Hubble en sjónsviðið spannar um 3,3 bogamínútur

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: Tarantúluþokan / NGC 2070
  • Tegund: Ljómþoka
  • Stjörnumerki: Sverðfiskurinn
  • Fjarlægð: 170.000 ljósár

Myndir

Tengt efni

Ummæli