Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 1 – haust 2013

Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 1 – haust 2013

Um dagbókina

Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.


Yfirlit yfir námsefni vetrarins

Ég sagði nemendum lauslega frá námsefni vetrarins:

 • Kennslubók: Nútíma stjörnufræði eftir Vilhelm Sigfús Sigmundsson
 • Fyrir jól: Stjörnuskoðun, reikistjörnur og tungl þeirra
 • Eftir jól: Sólin, stjörnurnar, vetrarbrautir og saga alheimsins
 • Stjörnulíffræði blandast inn í námsefnið á báðum önnum.


Námsmat

Innan sviga er hlutfall verkefnis í árseinkunn:

 • (20%) Stjörnuskoðunarverkefni um haustið (lagt fyrir í sept. – skilað í nóv.)
 • (20%) Örfyrirlestur (3-8 mín.) um stjörnumerki að hausti
 • (20%) Örfyrirlestur (3-8 mín.) um fyrirbæri utan sólkerfisins að vori
 • (40%) 3 skyndipróf, 2 bestu gilda í árseinkunn
 • Lokapróf (súdentspróf) um vorið


Stjörnufræðivefurinn

Sýndi Stjörnufræðivefinn og hvað er hægt að finna á honum:

 • Helstu síður á vefnum (stjörnuskoðun, sólkerfið, alheimurinn, stjörnulíffræði)
 • Sýndi stjörnukort mánaðarins og myndband um það sem sést á himninum í hverjum mánuði
 • Benti á að á vefnum birtast nýjustu fréttirnar úr heimi stjörnufræðinnar.


Stellarium stjörnufræðiforritið

Opnaði stjörnufræðiforritið Stellarium sem er uppsett á tölvum skólans. Í kennsluviku 2 var tími í tölvuveri þar sem nemendur lærðu betur á forritin Stellarium og AstroViewer. Ég vonast til þess að þau muni nota Stellarium þegar þau segja frá stjörnumerkjum í upphafi tíma síðar í haust (ætla að úthluta hverjum nemanda stjörnumerki – í upphafi kennslustunda verður svo 3-8 mínútna örfyrirlestur um „stjörnumerki dagsins“).


Stjörnuskoðunarferð um veturinn

Nemendur spurðu út í stjörnuskoðunarferð. Hún verður með MJÖG skömmum fyrirvara vegna síbreytilegs veðurfars. Ég sýni þeim skýjahulu- og norðurljósaspá Veðurstofunnar. Einnig minnist ég á ISON halastjörnuna sem gæti orðið áberandi á himninum í desember.

Reynslan hefur kennt mér að bíða ekki með stjörnuskoðunarferðina fram á vor því þá koma oft löng rigningartímabil. Ætla að reyna að hafa hana í haust.

Ég hef oft fengið símanúmer og netföng nemenda til þess að koma til þeirra upplýsingum um stjörnuskoðunarferð eins fljótt og hægt er því fyrirvarinn er skammur.


Mín sýn á stjörnufræðikennsluna

Talaði um mína sýn á stjörnufræðikennsluna: Ætla að reyna að tengja það sem við sjáum á himninum við fræðin, kynna fyrir þeim heim stjörnufræðinnar og atriði sem þau þekkja ekki núna en gætu verið forvitnileg. Tengja við fyrri kennslu um goðsögur og stjörnumerkin. Sést í verkefnum: Stjörnuskoðunarverkefni framkvæmt utandyra; örfyrirlestur um stjörnumerki; örfyrirlestur um áhugavert fyrirbæri eftir jól (stjörnur, gasþokur, vetrarbrautir, svarthol o.fl.).


Stjörnukort mánaðarins

Dreifði Stjörnukorti mánaðarins og sýndi hvernig á að nota það (þegar horft er í suður á að láta „Horft í suður“ á jaðri stjörnuskífunnar snúa niður, sama með hinar áttirnar). Dreifði einnig í þetta sinn stjörnukorti fjölskyldunnar til þess að sýna þeim hvernig það lítur út.


Sólkerfisrölt

Ég fór með nemendur í sólkerfisrölt þar sem við settum upp líkan af sólkerfinu. Á Stjörnufræðivefnum er síða sem lýsir því hvernig hægt er að búa til líkan af sólkerfinu á mismunandi skólastigum.