Stærð og aldur alheimsins

Dagbók stjörnufræðikennara

Umfjöllunin hér byggir á reynslu eins af umsjónarmönnum Stjörnufræðivefsins af stjörnufræðikennslu á framhaldsskólastigi. Hann birtir reglulega færslur á Stjörnufræðivefnum um kennsluna og setur inn það efni sem hann notar.


Flogið út að endimörkum alheimsins

Í myndbandinu er lagt upp í leiðangur frá Himalayafjöllum út í alheiminn. Eftir því sem við förum lengra út í geim erum við að fara aftur í tímann því við sjáum fyrirbærin eins og þau voru í fortíðinni (ljósið er búið að vera lengi á leiðinni frá þessum stöðum til okkar).

Þegar líður á myndbandið sést hvernig vetrarbrautirnar raðast upp í eins konar sápukúlumynstur með eyðum á milli vetrarbrautaþyrpinga. Ástæða þess að við sjáum aðeins þunnar sneiðar með vetrarbrautunum er sú að við höfum aðeins kortlagt uppröðun vetrarbrautanna á hluta himinsins (gögnin eru frá Sloan Digital Sky Survey sjónaukanum).

Síðar fljúgum við út að flekkóttu mynstri sem kallast örbylgjukliðurinn. Hann er ljósið sem berst til okkar frá þeim tíma þegar alheimurinn var 380 þúsund ára gamall. Við getum ekki séð lengra en út að örbylgjukliðnum og er það eina svindlið í myndbandinu þegar við ferðumst „út fyrir“ örbylgjukliðinn. Að öðru leyti er þetta á allan hátt mjög vandað myndband.


Samanburður á stærðum stjarna

Sláandi myndband sem sýnir stærð jarðar og sólar í samanburði við risastjörnur í vetrarbrautinni okkar. Þetta myndband vekur alltaf undrun og áhuga hjá nemendum!

Sumar af stjörnunum sem sjást í myndbandinu (Síríus, Pollux, Arktúrus, Aldebaran, Rígel) skína skært á næturhimninum yfir Íslandi á veturna.


Dagatal alheimsins

Hér er glærusýning þar sem saga alheimsins er hugsuð sem eitt ár. Forfeður mannkynsins koma fram rétt fyrir áramótaskaupið og nemendurnir hafa aðeins lifað í sekúndubrot!


Saga alheimsins á hringveginum umhverfis Ísland

Það er ótrúlega skemmtileg, kosmísk tilviljun hvað það eru mikil líkindi á milli aldur alheimsins (13.800 milljón ár) og lengd hringvegarins umhverfis Ísland (1330 kílómetrar). Þegar ég hef kennt um aldur alheimsins þá hef ég bæði sýnt sögu hans á dagatali (eins og að ofan) en einnig teiknað  mynd af Íslandi á töfluna (nú eða notað ljósmynd). Svo hef ég bent nemendum á hvað það séu mikil líkindi á milli talnanna sem tákna aldur alheimsins og vegalengdina umhverfis Ísland.

Hvað verður þá eitt ár í 13,8 milljarða ára sögu alheimsins langur bútur af hringveginum? Með því að deila í vegalengdina 1.330.000 metrar með aldrinum (13.800.000.000 ár) fæst að eitt ár er um 1/10.000 úr metra eða 0,1 mm af hringveginum! Þessi örstutti bútur er svipaður og breidd og mannshár.

Með því að ferðast í bíl á 90 km/klst. (sem eru 25 metrar á sekúndu) þá förum við á hverri sekúndu 250 þúsund ár í sögu alheimsins! Á fjórum sekúndum getum við ferðast milljón ár í sögu alheimsins en samt tekur tvo heila daga að aka hringinn í kringum landið!