Sloan Digital Sky Survey

Kortlagning himins

  • Sloan Digital Sky Survey
    Sloan Digital Sky Survey

Umsjónarmenn sjónaukans leggja mikið upp úr upplýsingagjöf til vísindamanna og almennings. Myndflagan í sjónaukanum er samanlagt 120 Megapixlar og á hverri nóttu skilar sjónaukinn um 200 GB í gagnagrunn sem geymdur er á svonefndum SkyServer. Hægt er að sjá öll svæðin sem sjónaukinn hefur tekið myndir af á vefsíðu netþjónsins en einnig er hægt að skoða myndir vikunnar sem eru sérvaldar myndir frá sjónaukanum.

vetrarbrautir, kortlagning alheims, Sloan Digital Sky Survey
Vetrarbrautirnar í alheiminum raða sér upp í eins konar sápukúlumynstur. Vinstra megin er mynd af örþunnri sneið með vetrarbrautum sem SDSS sjónaukinn kortlagði. Hver depill táknar eina vetrarbraut og er Vetrarbrautin okkar í miðjunni (sést ekki). Við erum stödd í útjaðri Meyjarþyrpingarinnar sem sést hægra megin á myndinni. Mynd: SDSS

Útbúið hefur verið sérstakt síða með kennsluefni sem tengist stjörnufræðirannsóknum og notkun SDSS. Við mælum sérstaklega með myndbandi um sjónaukann sem sýnir hvernig athuganirnar fara fram og mynstur í uppröðun vetrarbrauta langt út í alheiminn.

Árið 2005 tók við annar hluti Sloan Digital Sky Survey verkefnisins sem nefndist SDSS II. Kortlagning vetrarbrauta í alheiminum hélt áfram en auk þess leituðu vísindamenn að fjarlægum sprengistjörnum og rannsökuðu Vetrarbrautina okkar. Sá hluti SDSS II verkefnisins sem snýr að umhverfi okkar í geimnum nefnist SEGUE (Sloan Extension for Galactic Understanding and Exploration). Hann felur m.a. í sér að búa til þrívíddarlíkan af Vetrarbrautinni og næsta nágrenni. Eins og nafnið gefur til kynna voru það stjarneðlisfræðingar sem unnu við þennan hluta sem komu auga á dvergvetrarbrautina Segue 1 sem fjallað hefur verið um hér á Stjörnufræðivefnum. Mikil gróska er í rannsóknum á dvergvetrarbrautum og hefur u.þ.b. helmingur fylgivetrarbrauta Vetrabrautarinnar okkar fundist á síðustu tveimur árum (2006-2008).

Nú stendur yfir þriðji hluti Sloan Digital Sky Survey sem nefnist SSDS III. Haldið verður áfram með kortlagningu á uppröðun vetrarbrauta og könnun á samsetningu Vetrarbrautarinnar okkar. Einnig verður leitað að reikistjörnum við 11 þúsund sólstjörnur. Með litrófsmælingum er hægt að greina Dopplerhrif frá svonefndu þyngdarvaggi þegar sólstjarnan færist til og frá okkur vegna þyngdaráhrifa reikistjörnu. Afar erfitt er að sjá fjarlægar reikistjörnur því þær eru margfalt daufari en sólstjörnurnar en vísindamönnum hefur tekist að finna yfir 300 reikistjörnur með óbeinum aðferðum eins og þyngdarvaggi (tala frá haustinu 2008).

Heimildir:

  1. Vefsíða Sloan Digital Sky Survey. (Skoðað 19.9.2008)
  2. Myndir: Sloan Digital Sky Survey.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson (2008). Sloan Digital Sky Survey. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/alheimurinn/rannsoknir/sloan-digital-sky-survey (sótt: DAGSETNING).