Gamlar glitrandi kúlur

3. september 2012

  • Messier 4, Sporðdrekinn, kúluþyrping, stjörnuþyrping
    Kúluþyrpingin Messier 4 í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Mynd: NASA/ESA-Hubble

Þessa glitrandi fallegu ljósmynd tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA af stjörnum í miðju kúluþyrpingarinnar Messier 4.

Messier 4 er mjög nálægt okkur í geimnum eða í aðeins 7.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er þess vegna vinsælt viðfangsefni stjörnufræðinga sem rannsaka kúluþyrpingar. Í henni eru tug þúsundir stjarna en líka fjölmargir hvítir dvergar sem eru kjarnar gamalla, deyjandi stjarna sem hafa þeytt frá sér ytri lögum sínum út í geiminn.

Í júlí 2003 gerðu stjörnufræðingar óvænta uppgötvun í Messier 4, meðal annars með hjálp Hubbles, þegar þeir fundu reikistjörnuna PSR B1620-26 b. Þessi reikistjarna er 2,5 sinnum massameiri en Júpíter og er talin um 13 milljarða ára — næstum þrisvar sinnum eldri en sólkerfið! Reikistjarnan er á braut um harla óvenjulegt tvístirni, kerfi hvíts dvergs og tifstjörnu (tegund nifteindastjörnu).

Stjörnuáhugamenn á suðlægari slóðum en Íslandi geta skoðað Messier 4 á himninum en hana er að finna skammt frá rauðu risastjörnunni Antaresi í Sporðdrekanum. Þyrpingin er björt af kúluþyrpingu að vera en er þó ekkert í líkingu við mynd Hubbles: Í gegnum litla stjörnusjónauka sést kúlulaga þokuhnoðri.

Miðvikudaginn 5. september mun Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO) birta víðmynd af Messier 4 sem sýnir þyrpinguna í heild sinni. Heimsæktu www.eso.org á miðvikudaginn.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli