Afbrigðileg blá dvergvetrarbraut

26. nóvember 2012

  • NGC 5253, dvergvetrarbraut, óregluleg vetrarbraut, mannfákurinn
    NGC 5253 er óregluleg blá dvergvetrarbraut sem liggur í um 12 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Mannfáknum

Þessa vikuna færir Hubblessjónaukinn okkur mynd af óreglulegu vetrarbrautinni NGC 5253.

NGC 5253 er ein nálægasta bláa, þétta dvergvetrarbraut sem vitað er um. Hún er í um 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Mannfáknum. Helsta einkenni vetrarbrauta af þessu tagi er að þær innihalda mjög virk stjörnumyndunarsvæði og það þrátt fyrir að búa yfir fremur litlu rykmagni og við nokkurn skort á frumefnum þyngri en vetni og helíum, sem venjulega eru hráefnin í myndun stjarna.

Þessar vetrarbrautir hafa sameindaský sem líkjast mjög frumstæðu skýjunum sem mynduðu fyrstu stjörnurnar í árdaga alheims og voru snauðar ryki og þyngri frumefnum. Þess vegna álíta stjörnufræðingar bláu, þéttu dvergvetrarbrautirnar nokkurs konar prófsteina til að skilja betur frumstæðustu stjörnumyndunarferlin.

NGC 5253 geymir nokkurt ryk og þyngri frumefni en í mun minna mæli en Vetrarbrautin okkar. Í miðsvæðunum er stjörnumyndunin mest, eins og sjá má af rauðleita svæðinu á mynd Hubbles. Hrinusvæðið í miðjunni samanstendur af heitum ungum stjörnum í þyrpingu sem gefa frá sér blátt ljós á myndinni. Merki um stjörnumyndunarhrinuna kemur fram sem daufur, þokukenndur bjarmi af völdum jónuðu súrefnisgasi.

Raunverulegt eðli blárra, þéttra dvergvetrarbrauta hefur stjörnufræðingum ráðgáta í fjöldamörg ár Tölulegt líkan sem byggir á viðteknum heimsfræðikenningum nútímans um myndun vetrarbrauta, þekkt sem Lambda Cold Dark Matter líkanið, spáir fyrir um að miklu fleiri dvergvetrarbrautir ættu að hringsóla um stórar vetrarbrautir eins og Vetrarbrautina okkar. Stjörnufræðingar vísa til þessa misræmis sem Dvergvetrarbrautavandamálið.

Þessi vetrarbraut er talin tilheyra Centaurus A/Messier 83 vetrarbrautahópnum sem inniheldur útvarpsvetrarbrautina frægu Centaurus A og þyrilvetrarbrautina Messier 83. Stjörnufræðingar hafa bent á þann möguleika að afbrigðileika NGC 5253 megi rekja til þess að hún gerðist of nærgöngul granna sínum Messier 83.

Þessi mynd var tekin í sýnilegu og innrauðu ljósi með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Sjónsvið myndarinnar er um það bil 3,4 sinnum 3,4 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: NGC 5253
  • Tegund: Dvergvetrarbraut
  • Fjarlægð: 12 milljónir ljósára
  • Stjörnumerki:Mannfákurinn

Þysjanleg mynd

Myndir

Tengt efni

Ummæli