Kjarni Messier 100 í hárri upplausn

16. janúar 2011

  • Messier 100, M100, Þyrilvetrarbraut, Bereníkuhaddur
    Messier 100 er þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Hún liggur í um 50 milljón ljósára fjarlægð. Þessi mynd sýnir kjarnann og innstu hluta þyrilarmanna í áður óséðri upplausn.

Messier 100 er gott dæmi um fullkomna þyrilvetrarbraut, þ.e. vetrarbraut með bjarta og mjög afmarkaða þyrilarma. Þessir rykugu armar þyrlast umhverfis kjarna vetrarbrautarinnar og einkennast af miklum stjörnumyndunarsvæðum sem merkja Messier 100 með björtum bláum hámassa stjörnum.

Þessi mynd Hubblessjónaukans af sýnir Messier 100 í meiri upplausn en nokkru sinni áður svo bjartur kjarninn og innstu hluta þyrilarmanna sjást óvenju vel. Messier 100 hefur virkan og bjartan kjarna vegna risasvarthols sem gleypir efni og skín skært þegar það fellur inn.

Þyrilarmar vetrarbrautarinnar hýsa einnig svarthol, þar á meðal yngsta svarthol sem vitað er um í grennd við okkur en það er afurð sprengistjörnu sem sprakk árið 1979.

Messier 100 er í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi í um það bil 50 milljón ljósára fjarlægð.

Vetrarbrautin varð fræg á fyrri hluta níunda áratugarins þegar birtar voru tvær myndir af henni fyrir og eftir viðgerð á Hubblessjónaukanum. Myndirnar sýndu stórkostlegar umbætur á sjón Hubbles.

Þessi mynd var tekin með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Hún sýnir vel hversu afkastamikill sjónaukinn er eftir tvo áratugi á sporbaug umhverfis jörðina. Þessi mynd, eins og allar myndir í hárri upplausn, sýnir tiltölulega lítið sjónsvið eða aðeins 25 x 25 bogasekúndur.

Mynd: NASA/ESA og Hubble

Um fyrirbærið

  • Nafn: Messier 100
  • Tegund: Þyrilvetrarbraut
  • Fjarlægð: 50 milljón ljósár
  • Stjörnumerki: Bereníkuhaddur

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli