Þéttir bláir dvergar geta sig hvergi falið

11. júní 2012

  • Dvergvetrarbraut, M81 hópurinn, UGC 5497
    UGC 5479 er dvegvetrarbraut sem líklega tilheyrir Messier 81 vetrarbrautarhópnum. Hann liggur í um 12 milljóna ljósára fjarlægð.

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa mynd af dvegvetrarbrautinni UGC 5497, sem lítur svolítið út eins og salt sem stráð hefur verið yfir svart yfirborð.

Fyrirbærið er þétt blá dvergvetrarbraut sem inniheldur nýmyndaðar þyrpingar stjarna. Björtu bláu stjörnurnar sem verða til í þessum þyrpingum gefa vetrarbrautinni bláan lit sem endist í nokkur milljón ár eða þar til þessar skammlifu stjörnur springa.

UGC 5497 er talin hluti af M81 vetrarbrautarhópnum sem er í um 12 milljóna ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Stórabirni. UGC 5497 skaut upp kollinum í rannsókn sjónauka á jörðu niðri árið 2008 þegar leitað var að dvergvetrarbrautum í Messier 81 hópnum.

Samkvæmt viðtekinni heimsfræðikenningu um myndun vetrarbrauta, sem nefnist Lambda Cold Dark Matter, ættu að vera mun fleiri fylgivetrarbrautir við stórar vetrarbrautir, líkt og Messier 81 og okkar eigin, en vitað er um í dag. Uppgötvanir á áður óþekktum fyrirbærum, eins og þessari vetrarbraut, hjálpar mönnum við að áætla fjölda slíkra fyrirbæra en ekki hafa fundist nærri nógu mörg hinað til.

Stjarneðlisfræðingar velta því enn vöngum yfir vandamálinu um týndu fylgivetrarbrautirnar.

Sjónsvið myndarinnar, sem er samsett úr myndum í sýnilegu og innrauðu ljósi frá Advanced Camera for Surveys á Hubble, spannar um það bil 3,4 bogamínútur.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Um fyrirbærið

  • Nafn: UGC 5497
  • Tegund: Dvergvetrarbraut
  • Stjörnumerki: Stóribjörn
  • Fjarlægð: 12 milljónir ljósára

Myndir

Þysjanleg mynd

Tengt efni

Ummæli