Öræfajökull

 • Öræfajökull, Kvíárjökull
  Eldkeilan Öræfajökull. Skriðjökullinn fremst er Kvíárjökull. Mynd: Oddur Sigurðsson
Almennar upplýsingar
Hæð:
2.119 m.y.s.
Flatarmál: 400 km2
Rúmmál: 370 km3
Hnit: 64°00' N, 16°39' V
Bergfræði: Millibasalt (andesít, ríólít)
Tegund eldfjalls:
Eldkeila
Gos eftir landnám:
1362 og 1727

Öræfajökull er stærsta og hæsta fjall Íslands, um 2.110 metra hátt. Fjallið er eldkeila sem gosið hefur tvisvar sinnum frá því að land byggðist, árin 1362 og 1727 [1]. Í stórgosinu 1362 eyddist byggðin næst jöklinum, Litla-Hérað, og hét Öræfi eftir það, en nafnið kemur fyrst fram í heimildum árið 1412[13]. Var þá nafni jökulsins breytt í Öræfajökul en fram að þeim tíma hafði jökullinn heitið Knappa- eða Hnappafellsjökull, eftir Hnöppunum á jöklinum sem rísa rúmlega 1800 metra yfir sjávarmál[5, 14].

Þvermál Öræfajökuls við ræturnar er 18 til 20 km og grunnflöturinn 400 km2. Rúmmál hans er um 370 km3 sem þýðir að hann rúmar bæði Eyjafjallajökul og Snæfellsjökul, aðrar stórar íslenskar eldkeilur[1].

Á toppi Öræfajökuls er askja í stað venjulegs toppgígs, full af 550 metra þykkum jökulís. Á norðvesturbrún öskjunnar er jökulskerið Hvannadalshnúkur, ríólítgúll og hæsti tindur landsins um 2.110 metra yfir sjávarmáli. Alls rísa sex tindar á öskjubrúninni meira 1700 metra yfir sjávarmál[5].

Nokkuð hefur verið skrifað um Öræfajökul og Öræfasveit. Skal áhugasömum sérstaklega bent á bækurnar Þar sem landið rís hæst: Öræfajökull og Öræfasveit eftir Snævarr Guðmundsson, og Seiður lands og sagna: Sunnan jökla eftir Gísla Sigurðsson. Einnig er vert að geta árbóka Ferðafélags Íslands, annars vegar Við rætur Vatnajökuls eftir Hjörleif Guttormsson frá árinu 1993 og hins vegar Öræfasveit eftir Sigurð Björnsson á Kvískerjum frá árinu 1979.

1. Öræfasveit

Öræfasveit, Sveitin milli sanda í Austur-Skaftafellssýslu, þykir einn fegursti staður Íslands, enda prýdd öllum helstu auðkennum sem finna má í íslenskri náttúru. Þar hefst samfelld saga íslensku þjóðarinnar með landnámi Ingólfs Arnarsonar við Ingólfshöfða. Sveitin er um 60 km frá austri til vesturs, mæld í loftlínu[14]. Þar eru svartir sandar, háreyst og brött fjöll, klettar, skógar, blómlendi, jökulár og jökull. Öræfasveit þykir mjög veðursæl. Þar getur orðið mjög hlýtt á sumrin en líka hvasst og úrkomusamt. Það er því ekkert skrítið að Öræfasveit sé vinsæll áningarstaður ferðamanna.

Fá héruð hafa um aldar sætt jafn mikilli einangrun og Öræfasveit. Frá Vatnajökli og skriðjöklum Öræfajökuls renna straumþungar jökulár og kvíslir. Áður en árnar voru brúaðar torvelduðu þær öldum saman samgöngur innan sveitar. Fyrir vikið var byggðin í Öræfum lengi nokkuð einangruð, ekki síst vegna Jökulsár á Breiðamerkursandi og í austri og Skeiðarársandi í vestri.

Áður en árnar voru brúaðar óðu menn yfir vöð í jökulánum. Jökulsá á Breiðamerkursandi var brúuð árið 1967 en fram að þeim tíma var fólk almennt ferjað með báti yfir ána. Það var svo ekki fyrr en árnar á Skeiðarársandi voru brúaðar árið 1974 að hringveginum um landið var loks lokið. Árið 1967 var stofnaður þjóðgarður í Skaftafelli, sá fyrsti samkvæmt lögum um náttúruvernd[5].

Fram á 14. öld dreifðust bæir yfir gróðurlendi í sveitinni, allt þar til gífurlegt sprengigos kom úr jöklinum eftir langt goshlé árið 1362.

2. Skriðjöklar og jökulár

Öræfajökull er syðsti hluti Vatnajökuls, stærsta jökuls Evrópu. Á kolli hans er 4-5 km breið og 500 metra djúp askja[1][5]. Hún er barmafull af jökulís enda er þetta úrkomumesti staðurinn hérlendis. Afkoma á Öræfajökli var mæld fimm sinnum á vegum Jöklarannsóknarfélags Íslands milli áranna 1993 til 1998 í 1.820 metra hæð á sléttunni milli Hvannadalshnúks og Hnappa[8]. Nemur árlegt úrkomumagn milli 10 til 15 metrum. Þetta er meira en úrkoma á Kvískerjum undir Öræfajökli, sem er sá staður á Íslandi, utan jökla, þar sem mest ársúrkoma hefur mælst. Sennilegast fellur öll vetrarúrkoman sem snjór og mestur hluti sumarúrkomunnar einnig. Norðar og innar á Vatnajökli fer úrkoman minnkandi. Snælínan á jöklinum sunnanverðum er í 1.100-1.200 metra hæð en í 1.300-1.500 metra hæð við norðurbrúnir jökulsins[5].

Frá ísfylltum gígbörmum Öræfajökuls steypist tugur tignarlegra skriðjökla rúmlega 1.700 metra niður á sandana fyrir neðan. Þeir eru (frá vestri til austurs) Svínafellsjökull, Virkisjökull, Falljökull, Kotárjökull, Rótarfjallsjökull, Stigárjökull, Hólárjökull, Kvíárjökull, Hrútárjökull og Fjallsjökull. Við enda Fjallsjökuls er lítið lón, Fjallsárlón.

Kvíárjökull er skriðjökull sem gengur sunnan úr Öræfajökli. Hann er falljökull enda fellur hann um 500-600 metra djúpt hamragljúfur milli Staðarfjalls og Vatnafjalla. Á neðstu 6,5 km hefur hann grafið botn allt að 100 metra niður fyrir sjávarmál. Framan við Kvíárjökul eru Kvíármýrarkambur og Kambsmýrarkambur yfir 100 metra háir jökulgarðar, hinir hæstu á Íslandi. Jökullinn reis yfir öldurnar þegar hann var stærstur undir lok 19. aldar þegar Litlu-ísöld lauk. Hrundu þá jakar niður Kvíármýrarkamb[5].

3. Íssjármælingar

Sumarið 2006 gerðu Eyjólfur Magnússon, Helgi Björnsson og Finnur Pálsson frá Jarðvísindastofnun Háskólans íssjármælingar á Kvíár-, Hrútár og Fjallsjökli. Í íssjármælingum er mælt hve lengi rafsegulbylgja berst frá sendiloftnetum niður á jökulbotn og þaðan upp í móttökuloftnet. Á hverjum mælistað er loftnetunum komið fyrir með 30-80 metra millibili. Með tímamælingunni má reikna út þykkt jökulsins miðja vegu milli loftnetanna.

Skýrt var frá niðurstöðum mælinganna í 57. árgangi Jökuls, tímariti Jöklarannsóknarfélags Íslands. Kemur þar fram að Fjallsjökull var allt að 450 metra þykkur og grafinn 180 metra niður fyrir sjávarmál. Hrútárjökull var þykkastur um 300 metrar og liggur botn hans lægst í 10 metra hæð yfir sjó. Kvíárjökull mældist mest 350 metra þykkur og grafinn allt að 100 metra niður fyrir sjávarmál.

Undanfarna áratugu hafa þessir jöklar hopað og þynnst. En hvað verður um þá í framtíðinni haldi þeir áfram að hopa? Í greininni segir:

„Ef þessir jöklar hopa hratt mun Fjallsárlón verða stærst tæpir 11 km2, um 70 m djúpt að jafnaði en dýpst um 210 m áður en það tekur að fyllast af seti. Einnig mun myndast lón framan við Kvíárjökul sem verður stærst um 3 km2, 60 m djúpt að meðaltali en 130 m dýpst.“

4. Áhrif loftslagsbreyting á jökla og eldvirkni

Á hlýjasta skeiði nútíma, sem náði hámarki fyrir um 7500 árum, voru líklega aðeins smájöklar eftir á hæstu fjöllum eins og Öræfajökli. Fyrir um 4500 árum tók að kólna á ný en jöklar hófu ekki að myndast að ráði fyrr en á hinu síðara mýraskeiði, fyrir um 2500 árum. Á þessum tíma urðu væntanlega til ystu jökulgarðar við Kvíárjökul og Svínafellsjökul.

Álitið er að á landnámsöld hafi skriðjöklarnir verið minni en þeir eru í dag. Á kuldaskeiðinu eftir ísöld, sem oft er nefnt Litla ísöld, tóku jöklarnir að vaxa á ný. Talið er að um árið 1650 hafi hjarnmörk á sunnanverðum Vatnajökli verið um 350 m lægri en á 11. öld eða í 750 m hæð. Um aldamótin 1900 náðu jöklarnir sennilega mestri útbreiðslu allt frá síðara mýraskeiði.

Við upphaf 20. aldar lauk kuldaskeiðinu sem staðið hafði í Norður-Evrópu frá 13. öld. Hófu þá jöklarnir að hopa og þynnast mikið. Undir lok 20. aldar hafa jöklar hopað um heim allan. Hérlendis eru jöklarnir minni en þeir hafa verið frá 17. öld.  Gangi spár vísindamanna um loftslagsbreytingar eftir munu margir helstu jöklar landsins hverfa eftir eina til tvær aldir. Öræfajökull hefur þá hopað upp á hæstu tinda.

Tímasetning á skriði og hopi skriðjökla Öræfajökuls gefur vísbendingar um mögulegt samhengi milli eldsumbrota og breytinga á fargi yfir kvikuhólfi eldfjallsins. Þeir Freysteinn Sigmundsson og Páll Einarsson við Jarðvísindastofnun Háskólans hafa reiknað út hve mikið jarðskorpan undir Vatnajökli lyftist við hámark og lok síðasta jökulskeiðs og einnig áhrif minniháttar veðurfarsbreytinga.

Á síðustu öld missti Vatnajökull um 10% af massa sínum vegna loftslagsbreytinga. Af þeim sökum rís jarðskorpan umhverfis Vatnajökul um 25 mm á ári. Benda útreikningar Freysteins og Carolinu Pagli til að nokkurt magn af kviku, ~0,014 km3 á ári, myndist af völdum þynningar jökulsins.

Hugsanlegt er að fjaðurhreyfingar skorpunnar við þynningu framkalli togspennu og brotalínur í berggrunninum. Ef til vill má því búast við aukinni jarðskjálftavirkni og eldvirkni. Þegar ísinn þykknar vegna kaldara veðurfars eykst fargið og þrýstingurinn á kvikuhólfið. Dregur þá ef til vill úr gostíðni. Þegar ísinn þynnist léttir fargi af kvikuhólfinu og þrýstingur minnkar sem kann að auka gostíðni.

5. Jarðfræði

Öræfajökull er fremur ungur á jarðfræðilegan mælikvarða. Jarðsaga hans er ekki mjög vel þekkt en óneitanlega mjög áhugaverð. Hann hefur hlaðist upp þökk sé þykkum ísskyldi ísaldarjökulsins sem varnaði dreifingu gosefna og gerði honum kleift að stækka. Fjallið situr á þykkri 4-5 milljón ára jarðskorpu frá tertíer (plíósen) sem gerir honum kleift að verða þetta hár.

Segulmælingar sýna að bergið í Öræfajökli er að mestu yngra en 750 þúsund ára. Við Skaftafellsjökul sjást leifar megineldstöðvar sem var virk fyrir 2,7 milljón árum. Nálægt Breiðamerkurfjalli koma líka fram leifar gamallar megineldstöðvar. Neðst í Svínafelli eru jarðlög frá því snemma á ísöld og  3-4 milljón ára jarðlög frá því seint á síðtertíer. Ofan á þessum jarðlögum eru þykk setlög sem benda til þess að langt hlé hafi orðið á upphleðslu gosefna. Þar fyrir ofan er allt berg yngra en 750.00 ára.

Bergið í Öræfajökli telst að mestu millibasalt, andesít og ríólít (líparít). Neðarlega í Öræfajökli ber bergið í eldstöðinni einkenni alkalíraðarinnar, en ofar er berg úr þóleiísku röðinni. Sums staðar í kringum jökulinn er súrt berg, t.d. við Kvíárjökul og Kvísker. Annars staðar, t.d. í Svínafelli, er basískt berg frá ísöld áberandi og þar finnst bæði móberg og hraunlög.

Þyngdarmælingar sem Magnús Tumi Guðmundsson gerði um miðjan tíunda áratug 20. aldar sýna mikið af þungum jarðlögum norðan til í fjallinu. Eru það líklega storknuð innskot úr djúpbergi -  bæði gabbró og granófýr - leifar fornra kvikuhólfa. Undir suðurhluta jökulsins, þeim hluta sem verið hefur virkur síðustu nokkur hundruð ár, er minna um innskotaberg. Ástæðan er sennilega sú að eldvirknin hefur smám saman færst suður á bóginn og enn hafi stór innskot ekki myndast undir virka hlutanum.

Árið 1992 birtist í 62. árgangi Náttúrufræðingsins grein eftir Sigurð Björnsson, bónda og fræðimann frá Kvískerjum. Í greinni dregur Sigurður upp hugsanlega myndunarsögu landslagsins við Kvíárjökul og færir fyrir því rök að stór eldkeila hafi verið þar sem jökullinn er nú og hraun runnið frá henni í hlíðum Vatnafjalla, en upptök þess finnast hvergi í landinu eins og það er nú. Sigurður leiðir líkum að því að þessi eldstöð hafi sprungið fram í miklu sprengigosi snemma á nútíma, ekki ósvipað og gerðist í Sankti Helenufjalli í Bandaríkjunum árið 1980. Leifar eldstöðvarinnar sjást ef til vill í undirhlíðum jökulsins til beggja handa og í kleifinni sem til varð liggur Kvíárjökull. Hægt er að lesa þessa forvitnilegu grein Sigurðar á Tímarit.is.

6. Eldkeilan

Öræfajökull er megineldstöð sem reis á seinni hluta ísaldar upp af rústum tveggja fornra eldstöðva. Finnast leifar annarrar vestur í Skaftafellsfjöllun en hinnar austur í Breiðamerkurfjalli. Umhverfis Öræfajökul eru ekki sprungusveimar sem venjulega fylgja megineldstöðvum á Íslandi.

Öræfajökull er utan eiginlegu gosbelta landsins og eina eldstöðin austan eldvirka beltisins á landinu og hefur gosið nokkrum sinnum síðastliðin tíu þúsund ár. Í lok 20. aldar gerði Hjalti J. Guðmundsson rannsóknir á rúmum tug súrra gjóskulaga sem varpa ljósi á eldgosasögu Öræfajökuls á nútíma[7]. Niðurstöður Hjalta sýna að Öræfajökull gaus skömmu eftir lok síðasta jökulskeiðs, fyrir um 9.200 árum. Gaus svo aftur fyrir 6.500 árum og enn á ný 4.700 árum. Þessi þrjú eldsumbrot voru sennilega lítil. Fyrir 2.800 varð fremur stórt gos en fremur lítið fyrir um 1.900 árum. Síðasta gos áður en land byggðist varð fyrir 1.500 árum eða svo, sennilega allstórt[4].

Vitað er um basísk gjóskulög, sem hvorki tilheyra Grímsvötnum né Kötlu, undir Öræfajökli og tilheyra honum eflaust. Gosin eru því án efa fleiri en tilgreind eru í rannsóknum Hjalta[1].

Svo virðist sem eldsumbrot í Öræfajökli haldist í hendur við framrás skriðjökla. Eldgos í Öræfajökli virðast verða að meðaltali 330 árum eftir að hver framrás nær hámarki. Sú spurning vaknar óneitanlega hvort loftslagsbreytingar næstu áratuga komi af stað eldsumbrotum í Öræfajökli[1].

Öræfajökull hefur aðeins gosið tvisvar eftir að land byggðist, árin 1362 og 1727.

7. Eldgosið 1362

Sjá nánar: Eldgosið í Öræfajökli 1362

Árið 1362 gaus Öræfajökull einu mesta eldgosi frá upphafi Íslandsbyggðar. Gosið varð sennilega í öskju eldkeilunnar og var mjög kröftugt, súrt sprengigos sem þeytti upp 10 km3 af gjósku. Gosinu fylgdu jökulhlaup undan Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli, Svínafellsjökli og Kvíárjökli. Ekki er vitað hversu stór hlaupin voru.

Þegar gosið hófst var blómleg byggð í Litla-Héraði eins og Öræfi hétu áður. Í gosinu eyddist öll byggð og liðu fjörutíu ár þar til fólk settist að í Öræfum. Engum sögum fer af því hvort allir fórust, en víst er að eitthvert mannfall varð.

8. Eldgosið 1727

Sjá nánar: Eldgosið í Öræfajökli 1727

Snemma í ágúst 1727 urðu snarpir jarðskjálftar í Öræfum sem enduðu með gosi í Öræfajökli. Sprunga opnaðist ekki í öskjunni sjálfri heldur neðar í fjallinu, við rætur jökulsins upp af Sandfellsfjalli. Öskufall var mikið fyrstu þrjá daga gossins en gosið var mun minna en árið 1362. Gosið stóð fram í apríl eða maí 1728.

Jökulhlaup komu undan Falljökli, Virkisjökli og Kotárjökli og fram úr Sigárgljúfri. Ummerki hlaupsins eru greinileg enn í dag þegar ekið er um Öræfin. Þrjár manneskjur létu lífið í hlaupinu auk suðfés og hesta.

Meira um Öræfajökul á Vísindavefnum

Heimildir og ítarefni

 1. Ari Trausti Guðmundsson. 2001. Íslenskar eldstöðvar. Vaka-Helgafell, Reykjavík.

 2. Bjarki Bjarnason. 2009. Ísland í aldanna rás – 18. öldin. Forlagið, Reykjavík.

 3. Freysteinn Sigmundsson og Páll Einarsson. 1992. Glacio-isostatic movements of the Vatnajökull ice cap, Iceland. Geophysical Research Letters 19, bls. 2.123-2.126.

 4. Gísli Sigurðsson. 2002. Seiður lands og sagna: Sunnan jökla. Skrudda, Reykjavík.

 5. Helgi Björnsson. 2009. Jöklar á Íslandi. Bókaútgáfan Opna, Reykjavík.

 6. Hjalti J. Guðmundsson. 2001. The relationship between volcanic eruptions, crustal movements and the pattern of glacial fluctuations – an example from the Öræfi district, Iceland. Journal of Quaternary Science.

 7. Hjalti J. Guðmundsson. 2001. Holocene tephrochronolgy of the Öræfi district, Iceland. Jökull.

 8. Magnús T. Guðmundsson. 2000.  Mass balance and precipitation on the summit plateau of Öræfajökull, SE-Iceland. Jökull, 48, 49-54.  (PDF-skjal 1.0 Mb). 


 9. Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson, Ágúst Gunnar Gylfason. 2008. Volcanic hazards in Iceland.  Jökull, 58, 251-268. (PDF-skjal 3.7 Mb).


 10. Pagli, C, og F. Sigmundsson. 2008. Will present day glacier retreat increase volcanic activity? Stress induced by recent glacier retreat and its effect on magmatism at the Vatnajökull ice cap, Iceland. Geophysical Research Letters., 35, L09304.

 11. Sharma K., Self S., Blake S., Þorvaldur Þórðarson og Guðrún Larsen. 2008. The AD 1362 Öræfajökull eruption, S.E. Iceland: Physical volcanology and volatile release. Journal of Volcanology and Geothermal Research 178 (4), bls. 719-739.

 12. Sigurður Björnsson. 1993. Hvað gerðist við Kvíárjökul í lok ísaldar? Náttúrufræðingurinn 62, 1.-2. hefti.

 13. Sigurður Björnsson. 1951. Jökulhlaupið 10. nóv 1598. Náttúrufræðingurinn 21 (3), bls. 121-122.

 14. Snævarr Guðmundsson. 1999. Þar sem landið rís hæst: Öræfajökull og Öræfasveit. Mál og menning, Reykjavík.

Hvernig vitna skal í þessa grein

 • Sævar Helgi Bragason (2010). Öræfajökull. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/jordin/eldgos-og-eldfjoll/oraefajokull (sótt: DAGSETNING).