Eldgosið í Öræfajökli 1362
Yfirlit
Gosið hófst um í júnímánuði og stóð fram á haust. Krafturinn var mestur fyrstu 1 til 2 daga gossins og náði gosmökkurinn sennilega tæplega 30 km hæð. Í heildina þeyttust upp 10 km3 af gjósku eða sem samsvarar 2,5 km3 af föstu líparítbergi í mesta vikurgosi sem orðið hefur á Íslandi síðan Hekla gaus um 800 f.Kr. Þessi ljósi vikur sést vel frá þjóðveginum enn í dag þegar farið er um sveitirnar. Um 80% gjóskunnar hurfu á haf út en tjón af hennar völdum varð í byggð allt að 70 km frá eldstöðinni. Ekki er vitað nákvæmlega hvar gaus í fjallinu en líklegt að gosið hafi innan öskjunnar.
Eldsumbrotunum fylgdu jökulhlaup undan Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli og Svínafellsjökli niður Skeiðarársand en Kvíárjökull hljóp á sjó út. Ekki er vitað hversu stór jökulhlaupin voru en leiða má líkum að því að þau hafi ekki verið stórkostleg og til þess benda raunar vegsummerki í fjallinu. Jökullinn var minni þá en nú vegna hlýindatímabils sem á undan var gengið. Hlaupið hefur þó án efa verið skelfilegt og kröftugt vegna mikillar fallhæðar niður fjallshlíðarnar. Úr orku þess dróg um leið og hlaupvatnið var komin niður á flatlendið þar sem það dreifðist um sandana.
Mikill aurburður fylgdi hlaupinu svo þetta var eðjuflóð (lahar). Stór ísbjörg flæddu um sandana og hurfu á löngum tíma.
1. Litla-Hérað
Þegar gosið hófst var blómleg byggð í Litla-Héraði eins og Öræfi hétu áður. Stunduð var akuryrkja enda veðursæld með eindæmum. Talið er að a.m.k. 30 bæir hafi verið á Litla-Héraði, frá Morsárdal og yfir að Breiðumörk. Gosið og jökulhlaupin eyddu allri byggð, en vikurregnið hafði langmest að segja. Tjón varð mikið allt austur að Hornafirði og Lóni. Heimildir um eldsumbrotin eru fremur fátæklegar en er þó getið í nokkrum annálum, t.a.m. í Skálholtsannáli frá ofanverðri 14. öld. Þar segir:
Eldur uppi á þremur stöðum fyrir sunnan og hélst það frá fardögum til hausts með svo miklum býsnum að eyddi allt Litla hérað og mikið af Hornafirði og Lónshverfi svo að eyddi fimm þingmannaleiðir. Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur og urðu þar síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk. Sandurinn tók í miðjan legg á sléttu en rak saman í kafla svo varla sá í húsin. Öskufall bar norður um land svo að sporrækt var. Það fylgdi að vikrinn sást reka í hrönnum fyrir Vestfjörðum að varla máttu skip ganga fyrir.
Í Gottskálksannál segir:
Í Austfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegu alla. Á sú í Austfjörðum, er Úlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.
Í Oddverjaannáll, sem ritaður var árið 1580, stendur:
Eldur uppkominn í Litla héraði og eyddi öllu héraðinu: höfðu þar áður verið 70 bæir: lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.
Ísleifur Einarsson (1655-1720), sýslumaður á Höfn í Hornafirði milli 1684 til 1720 skráði eftirfarandi þjóðsögu eftir Öræfingum á fyrsta tug 18. aldar:
Að smalinn að Svínafelli, Hallur að nafni, hafi lokið við að reka fé til mjalta og kvenmenn farnir að mjólka þegar við kvað mikill brestur í Öræfajökli svo þau undruðust. Litlu síðar kom annar brestur, og mun þá Hallur hafa mælt að eigi væri ráð að bíða þess þriðja. Hljóp hann upp í helli [Flosahelli sem er í fjallinu fyrir austan Svínafell] í fjallinu fyrir ofan bæinn og þá heyrðist þriðji bresturinn. Sprungu jöklarnir við það og hleyptu vatni og grjóti fram úr hverju gili svo af tók bæi.
2. Gusthlaup
Eldfjallafræðingarnir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson telja líklegt að gusthlaup (gjóskuflóð) hafi eytt Litla-Héraði. Gusthlaup eru gríðarlega heit og draga allt súrefni úr andrúmsloftinu í sig. Hverjum manni og hverri skepnu sem fyrir verður bíður bráður bani.
Gosið í Öræfajökli 1362 er eitt mesta sprengigos sem orðið hefur á jörðinni undanfarið árþúsund. Það sem líklega kemst næst því af íslenskum gosum á sögumlegum tíma er Heklugosið 1104 og þar næst Öskjugosið 1875 sem þó var minna. Gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991, sem olli víðtækum veðurfarsáhrifum, kemst sennilega næst því að vera svipaðrar stærðar og Öræfajökulsgosið 1362.
Gífurlegt öskufall var við rætur fjallsins og allt austur að Hornafirði. Í 15 km fjarlægð frá fjallinu er gjóskan meira en eins metra þykk.
3. Mannfall
Annálar eru fremur fámálir um hve mikið mannfall varð í hamförunum. Engum sögum fer af því hvort allir fórust. Kannski leynist sannleikskorn í Oddaverjaannáli en hann var reyndar ritaður tveimur öldum eftir atburðina og eflaust byggður á sögusögnum og skildi því ekki taka bókstaflega.
Af annarri heimild að dæma, Vilchinsmáldaga fyrir Stafafell í Lóni, hefur fólki og fénaði að einhverju leyti bjargað úr sveitinni austanverðri. Fjallið lét næsta örugglega vita af sér með snörpum jarðskjálftum sem felldu torfbæi og neyddi fólk til að flýja ósköpin.
Fjórir áratugir liðu þar til fólk settist aftur að í Öræfum. Byggðin var þéttari en áður og er svo enn í dag. Þar sem áður var gróðursælt Litla-Hérað er nú að mestu gróðursnauð – en tignarleg - auðn.
Tengt efni
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sævar Helgi Bragason (2010). Eldgosið í Öræfajökli 1362. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/eldgosid-i-oraefajokli-1362 (sótt: DAGSETNING).